144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

mjólkurfræði.

336. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og þakka honum fyrir rökstuðning sem styður við þingsályktunartillöguna sem ég flutti hér áðan.

Ástæðan fyrir því að erfitt er fyrir einstaklinga að komast í námsleiðir erlendis er varða matvæli, vinnslu og þróun er sú að það er mikil vakning hjá öðrum þjóðum í þessum málefnum. Aðsóknin í búfræðinám við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur líka sýnt fram á að fólk hérlendis er tilbúið að framleiða matinn og við þurfum einnig að skapa það umhverfi að við fáum fólk sem er tilbúið að vinna úr landbúnaðarafurðunum.

Því langar mig kannski að spyrja þingmanninn hvort hann sjái fyrir sér meiri möguleika á samvinnu milli skóla innan lands um nám er varðar úrvinnslu landbúnaðarafurða og einnig hvort hann sjái þá fyrir sér sömu möguleika í landbúnaði er varða tækniþróun og úrvinnslu og hafa verið í sjávarútvegi. Nýverið sá ég hugmyndir búfræðinema við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem þau voru ekki einungis að smíða tæki og tól til að nota við hin ýmsu bústörf heldur einnig að hanna sjálf. Ég tel því að þessar hugmyndir séu svolítið komnar áfram hjá okkur. Við þurfum bara að skapa umhverfi til þess að þetta verði að veruleika.