144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

mjólkurfræði.

336. mál
[19:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni um það sem hér kom fram. Varðandi menntun á sviði landbúnaðar- og matvælaframleiðslu og úrvinnslu matvæla vil ég sjá stóraukna áherslu á þessi mál hjá íslenskum stjórnvöldum. Þess vegna finnst mér þessi tillaga mjög góð. Það þarf að horfa mjög vítt á þetta og við þurfum að stórefla grunnmenntun þeirra sem vilja starfa við landbúnað, matvælaframleiðsluna sjálfa. Við þurfum líka að stórefla menntun og rannsóknir þeirra sem vilja vinna við úrvinnslu greinarinnar.

Ísland getur orðið fyrirmynd á þessu sviði í landbúnaði eins og í sjávarútvegi. Landbúnaður á þeirri breiddargráðu sem við stundum hann og miðað við þær veðurfarslegu aðstæður sem hér eru getur orðið fyrirmynd margra svæða í Norður-Ameríku, Norður-Evrópu, Mongólíu og á norðlægari svæðum Rússlands. Á þessum svæðum eru gríðarleg tækifæri til matvælaframleiðslu. Við það búskaparlag sem við búum við hér og við þær veðurfarslegu aðstæður sem hér eru, langir vetur og stutt sumur, eigum við að geta verið númer eitt í heiminum í tæknilausnum, tækniþróun, menntun, búskaparháttum og öllu sem þessu tengist. Það er það sem mér finnst að íslensk stjórnvöld eigi að stefna að en til þess þurfum við að stórauka matvælaframleiðsluna og stórauka menntun. Grunnurinn að því að geta komist á þennan stað, að vera þetta öfluga matvælaútflutningsland og geta byggt upp á sambærilegan hátt og sjávarútvegurinn, er að mennta fólk. Það er nákvæmlega það sem þessi tillaga hv. þingmanns gerir ráð fyrir og þess vegna er hún svo jákvæð.