144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

mjólkurfræði.

336. mál
[19:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir að hafa lagt þetta mál fram. Það víkkar aðeins það sjónarsvið sem við þingmenn þurfum að horfa til, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Þetta eru leiðir sem við eigum að fara, svo fámenn þjóð í svo stóru landi, að sækja menntun erlendis.

Á árum áður fór tveir til þrír einstaklingar árlega til Danmerkur að læra mjólkurfræði en í þessari tillögu til þingsályktunar kemur fram að svo hefur ekki verið síðastliðin þrjú ár. Það er mjög bagalegt, sérstaklega í ljósi þess að Ísland getur gert svo langtum betur, bæði varðandi landbúnað og garðyrkju.

Hæstv. forseti. Mig langar að upplýsa það hér að ég hef verið talsmaður þess að þegar í hlut á nám sem mjög fáir stunda en er í boði hér á landi, t.d. nám í blómaskreytingum — ég hef viðrað þær hugmyndir í fjárlaganefnd og víðar — þá eigi hiklaust að athuga hvort ekki sé hægt að gera samninga við erlenda skóla, í Danmörku eða Noregi svo að dæmi sé tekið, þar sem fagið stendur mjög framarlega, og kaupa sem samsvarar tveimur eða þremur nemendaígildum og leggja þar með þá kennslu niður hér á landi. Ég tel að það sé afskaplega dýrt fyrir íslenska ríkið að halda úti námi sem svo fáir stunda.

Ég gæti útvíkkað þetta enn frekar varðandi garðyrkjuna. Við gætum sent duglegt og öflugt fólk út til að læra skógarberjafræði, heimskautaberjafræði. Það er svo margt sem er að koma upp núna sem við Íslendingar getum farið í að framleiða ef hugmyndaauðgin er til staðar. Sem dæmi má nefna, um það hve íslenskir garðyrkjubændur standa framarlega á sínu sviði, að eftir bankahrunið 2008, þegar gripið hafði verið til þess ráðs að skera niður allar plöntur í nytjaskógum bænda, fóru nokkrir aðilar, sem voru búnir að fjárfesta í gríðarstórum gróðurhúsum, út í að rækta skógarber sem ekki hafði verið gert áður hér á landi; og möguleikarnir eru óteljandi.

Ég vil vísa því til þeirra sem sitja í menntamálanefnd þingsins að nota þessa þingsályktunartillögu þó ekki væri nema til umræðu í nefndinni um hvort skoða ætti fleiri leiðir, eins og lagt er til í þessari tillögu sem snýr að mjólkurfræði, og fara þannig yfir sviðið, hvernig við fáum bestu þekkinguna inn í landið með því að gera samninga við erlenda skóla og þá sérstaklega sem lýtur að framleiðslu í mjólk, kjöti, í sjávarútvegi og í hinum græna geira sem snýr að matjurtaræktun í gegnum grænu stóriðjuna, þ.e. í gróðurhúsum.

Ég fagna því mjög þessari tillögu því að það er alltaf ákaflega gaman að sjá framúrstefnumál koma fyrir þingið. Það verður að nota þau til hins ýtrasta til að opna umræðuna og hugsa út fyrir kassann. Það eru allt of margir fastir í því að sjá ekki tækifærin sem þetta stórkostlega land, og sá stórkostlegi mannauður sem hér býr, hefur upp á að bjóða.