144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan í kjaradeilum.

[15:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar svona staða er uppi eins og nú er þá hljótum við að hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin komi ekki með neinar aðgerðir sem geri að verkum að kjör þessara hópa lagist með einhverju móti. Við erum að brenna inni á tíma hér á Alþingi. Við eigum eftir um þrjár vikur á þessu þingi samkvæmt áætlun og okkur er naumt skammtaður tíminn og hingað kemur ekkert inn þannig að ekkert bendir til þess að ríkisstjórnin ætli að koma fram með nokkurn skapaðan hlut sem geti bætt kjör þessara hópa með óbeinum aðgerðum.

Virðulegi forseti. Ég hef líka áhyggjur af þeim málflutningi sem sýknt og heilagt kemur upp hjá ríkisstjórninni og forustumönnum hennar um að það séu alltaf þeir sem lægstu tekjurnar hafa og lægri millitekjurnar sem þurfi að axla ábyrgð á því að halda verðbólgu í skefjum, þegar menn gera alls ekki slíkar kröfur til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Þessir tónar heyrast ekki þegar laun þeirra eru hækkuð. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þeir sem lægstu hafa launin kalla eftir því að fá lífskjarabætur vegna þess að þeir þurfa þær ef þeir eiga að hafa það af í þessu landi.