144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

notkun úreltra lyfja.

[15:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum hafa í kringum 200 sjúklingar greinst með lifrarbólgu og þeim standa einungis til boða lyf sem þykja úrelt bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þau eru vissulega ódýrari í innkaupum, en aukaverkanir eru miklar og miklu minni svörun. Það kom líka fram að hluti þessa hóps er afar veikur og getur í rauninni ekki beðið. Nú er það svo að lifrarbólga C er einn algengasti lifrarsjúkdómur á Vesturlöndum og ein algengasta ástæða skorpulifur og lifrarbilunar og algengasta orsök lifrarígræðslu. Það kom fram hjá Sigurði Ólafssyni sem er yfirlæknir og sérfræðingur í meltingarsjúkdómum að honum þyki algjörlega óásættanlegt að fólk með lifrarbólgu C fái ekki tilskilin lyf og það eigi sér enga hliðstæðu í nágrannalöndunum.

Nú er lyfjaafgreiðslunefnd farin að hafna umsóknum um sjúkrahúslyfin, þ.e. svokölluð S-merkt lyf, á grundvelli þess að ekki sé lengur svigrúm til þess á fjárlögum ársins í ár. Þetta er staða málsins þrátt fyrir að Ísland sé nú þegar eftirbátur nágrannaþjóðanna, sem lýsir sér fyrst og fremst í því að alvarlega veikir sjúklingar hér á landi njóta ekki sömu meðferðarúrræða og sjúklingar annarra þjóða og hafa því miður ekki gert um nokkurra ára skeið. Það er vissulega þannig og kom fram á fundi fjárlaganefndar í morgun þegar velferðarráðuneytið kom þar í heimsókn að S-merkt lyf verða innan fjárhagsramma enda engin ný lyf tekin inn. Það þýðir að nýrnasjúklingar, fólk með lifrarbólgu eða með krabbamein, fá ekki ný lyf sem þeim gætu annars staðið til boða. Nú er ég að tala um lyf sem tekin hafa verið í notkun annars staðar á Norðurlöndunum eða Bretlandi, ekki lyf sem við erum fyrst að prófa.

Í ljósi umræðunnar um helgina og samtals okkar hæstv. ráðherra um ríkisfjármálaáætlun sem við áttum fyrir helgi þá langar mig til þess að spyrja ráðherrann hvort hann sé enn þá sannfærður um að búið sé að ná jafnvægi í S-merktum lyfjum, eða hvort hann taki undir með þeim sem ég vitnaði í (Forseti hringir.) og telji að það þurfi að innleiða ný lyf.