144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

notkun úreltra lyfja.

[15:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að spyrja hann er sú að fjármunirnir eru undir fjármálaráðuneytinu komnir, velferðarráðuneytið óskar eftir fjármunum, Sjúkratryggingar óska eftir fjármunum, og það er fjármálaráðuneytið sem gefur á endanum græna ljósið. Það er alveg ljóst að hægt er að lengja líf sjúklinga, við vitum það, með því að bjóða upp á nýrri lyf en gert hefur verið. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra er sú að við áttum samtal um akkúrat þetta varðandi ríkisfjármálaáætlunina sem hann lagði fram. Ráðherrann taldi að S-merkt lyf væru komin í jafnvægi og taldi ekki beinlínis þörf á, fyrir næstu árin sem hann lagði fram áætlun um, auknu fjármagni í þennan lið. Því er ég ekki sammála.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra því þetta er undir honum komið líka, ekki einungis heilbrigðisráðherra. Þess vegna finnst mér skipta máli hvaða leið hæstv. ráðherra vill fara, hvaða aðferð hann vill nota. Telur hann að það þurfi að auka fjármagn í þennan lið? Ég geri mér alveg grein fyrir því að hann (Forseti hringir.) vex okkur yfir höfuð ef við gerum ekki eitthvað til að stemma stigu við því og geri mér líka grein fyrir því að við getum ekki innleitt öll lyf. En (Forseti hringir.) við höfum ekki innleitt ný lyf mjög lengi vegna fjárhagsstöðu okkar og það er augljóslega komið að þeim tíma að við þurfum að gera það.