144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

notkun úreltra lyfja.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í þeirri ræðu sem hv. þingmaður vísar til þá tók ég fram að við værum búin að ná utan um kostnaðinn vegna S-merktra lyfja og ég teldi ekki að kostnaðurinn væri vanáætlaður. Það hafði verið sérstakt vandamál að við höfum alltaf farið fram úr áætluðum kostnaði, t.d. þegar flokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn fórum við alltaf fram úr í S-merktu lyfjunum í raunverulegum kostnaði borið saman við það sem þingið hafði afgreitt. (BjG: Það eru níu mánuðir eftir af árinu.) Það er stjórnenda Landspítalans og þeirra sem bera ábyrgð á þessum málaflokki sérstaklega, sjúkrahússlyfjanna, að forgangsraða í þessum efnum. Þetta er faglegt úrlausnarefni. Það kemur ekki inn á borð fjármálaráðherrans að flokka lyf inn á svona lista. Það er alrangt sem hv. þingmaður segir að þetta sé með einhverjum hætti málefni fjármálaráðherra. Fjárheimildirnar eru afgreiddar af þinginu.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir hálfsorglegt þegar menn koma hér (Forseti hringir.) og hvetja til þess að stofnanir fari fram úr fjárlögum. Bara sjálfsagt og endilega með stuðningi ráðherranna. (BjG: Það gerði ég ekki.) Það er það sem hv. þingmaður er að segja. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður spyr eftir því (Gripið fram í.) hvort ég ætli ekki að gefa því blessun mína að menn fari fram úr fjárlögum. (Gripið fram í.) vegna þess að (Forseti hringir.) það vanti einhver tiltekin lyf. Það var akkúrat það sem þú sagðir. (BjG: Rangt.)

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja þingmenn að halda sig við ræðustólinn þegar fyrirspurnir eru settar fram.)