144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

aðgangur landsmanna að háhraðatengingu.

[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mjög ánægjulegt að heyra. Ég vil taka meira inn í umræðuna umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar þannig að þetta sé alveg skýrt af því að formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, vildi fá að hafa aðeins meiri umræðu um þetta í nefndinni út frá réttarvinklinum þannig að það virðist ekki hafa komist alveg nógu vel til skila. Við verðum að vona bara að það klárist í nefndinni að taka þennan réttarvinkil inn, samanber það sem kemur fram í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar:

„Enn fremur til að tryggja að umferðarstýringar í fjarskiptanetum verði ekki til þess að útiloka tilteknar þjónustur og koma þannig í veg fyrir nýsköpun og samkeppni“ en dæmi um þetta eru náttúrlega erlendis. Þetta er svo mikilvægt.

Það sem ég er að reyna að gera hérna er að vekja máls á og skapa sem sagt velvilja fyrir því að við klárum þetta í umhverfis- og samgöngunefnd og spyr bara hvort það sé ekki gott að fá sérþekkingu (Forseti hringir.) pírata hvað þetta varðar, réttarstöðu hvað þetta varðar, inn í alla þessa vinnu.