144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um makrílfrumvarpið.

[15:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ósmekklegt af sjávarútvegsráðherra að dylgja um það að þingmenn sem ekki eru sammála honum um makrílgjafakvótann vilji ekki halda landinu í byggð. En það er hins vegar hægt að skilja það að hæstv. ráðherra sé í svo mikilli vörn og sé jafn viðkvæmur fyrir spurningum um makrílgjafakvótann og raun ber vitni, því að hæstv. ráðherra er að verða býsna einmana í málinu. 30 þúsund Íslendingar — og þeim fer stöðugt fjölgandi — kalla eftir því að fá að greiða atkvæði um makríltillögu ráðherrans. Ég spyr ráðherrann einfaldlega: Er ekki sjálfsagt að þjóðin fái að greiða atkvæði um tillögur hans um makrílgjafakvótann? Er það ekki bara alveg sjálfsagt að spara forseta Íslands ómakið og vísa þessum tillögum beint til atkvæða hjá þjóðinni þegar tugir þúsunda manna hafa farið fram á það? Er það ekki í fullkomnu samræmi við yfirlýsingar ráðherrans annars vegar um það að þetta sé sameign þjóðarinnar og þar með þeirra sem eru að kalla eftir því að fá að greiða atkvæði um tillöguna, og hins vegar margvíslegar yfirlýsingar hæstv. ráðherra hér í þinginu um nauðsyn aðkomu þjóðarinnar, og því að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um hin ýmsu mikilvægu mál? Sannarlega er hér um mikilvægt mál að ræða því að ráðherrann er að leggja það til að gríðarleg verðmæti verði gefin litlum forréttindahópi mörg ár fram í tímann þannig að menn þurfi ekki bara að vinna einar alþingiskosningar heldur tvennar til þess að geta breytt einhverju þar um.

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra á ekkert með að spyrja aðra um hvers vegna þeir vilji uppboð. Uppboð hafa skilað gríðarlegum verðmætum, til dæmis hjá frændum okkar Færeyingum, og ég spyr hæstv. ráðherra: Skilaði það ekki margfalt hærri veiðigjöldum í Færeyjum að bjóða heimildirnar upp? (Forseti hringir.) Sitja ekki allir við sama borð þar? Spyrja verður: Af hverju á ekki að bjóða heimildirnar upp?