144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um makrílfrumvarpið.

[15:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Var spurningin ekki einföld, hæstv. ráðherra? Er ekki sjálfsagt að leyfa þjóðinni að kjósa um þessar tillögur? Er ekki sjálfsagt að verða við ósk 30 þúsund Íslendinga um að þeir fái að greiða atkvæði um hvort sameign þjóðarinnar verði með þessum hætti gefin mörg ár fram í tímann? Getur ekki hæstv. ráðherra bara svarað spurningunni sem til hans var beint?

Hann getur alveg látið það vera að halda fyrir mig fræðslufyrirlestra um stjórnmál í Færeyjum. Það vill þannig til að kosið verður í Færeyjum í haust og þar verður kosið einmitt um þetta grundvallaratriði: Með hvaða hætti á að úthluta aflaheimildum og með hvaða hætti á að koma endurgjald fyrir það í sjóði almennings?

Ég veit af hverju ráðherrann svaraði ekki hinni spurningunni, því að hvorugri spurningunni sem til hans var beint var svarað. Fékk ekki ríkissjóður Færeyja miklu hærri veiðigjöld þegar uppboði var beitt (Forseti hringir.) en hér hafa nokkurn tíma verið innheimt? Hæstv. ráðherra vill ekki svara því vegna þess að svarið (Forseti hringir.) er einfalt: Jú, miklu hærri tekjur til almennings af uppboði en nokkurri annarri aðferð.