144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

655. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Efni fyrirspurnar minnar lýtur að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni eða The Convention on Biological Diversity, með leyfi forseta, en markmið þessa samnings er að vernda lífræðilega fjölbreytni og stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Um leið er það markmið samningsins að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær. Samningurinn berst ekki eins oft í tal í þingsal og loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna en er ekki síður mikilvægur. Samningurinn rekur sögu sína aftur til ráðstefnunnar í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992 og var staðfestur á Alþingi strax á árinu 1994.

Nú er það svo að nánast öll ríki veraldar eru aðilar að þeim samningi, en samningurinn snýst um að standa vörð um flókinn vef vistkerfa veraldarinnar og gæta að því við inngrip í vistkerfin að þau valdi ekki varanlegum og alvarlegum skakkaföllum. Samningurinn hefur það markmið að vernda líffræðilega fjölbreytni, að tryggja að nýting auðlinda, lífrænna auðlinda, sé sjálfbær og að arðinum sé skipt með réttlátum hætti, eins og hér kom fram.

Fyrir liggur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu frá því á síðasta kjörtímabili stefnumörkun Íslands um líffræðilega fjölbreytni, þ.e. framkvæmdaáætlun. Mig langar af þeim sökum að spyrja hæstv. ráðherra hvað líður framkvæmd þeirrar áætlunar, en mikill hluti af stefnunni og útfærsla áætlunarinnar fellur að starfssviði stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og auðvitað líka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þessar stofnanir eru fyrst og fremst Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, Landgræðslan og skógræktin, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, landshlutabundnu skógræktarverkefnin og erfðanefnd landbúnaðarins og síðast en ekki síst Matvælastofnun.

Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru tvær. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hana, vegna þess að hún fer með umhverfis-, auðlinda- og náttúruverndarmál á Íslandi: Hvert er að mati ráðherra gildi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni? Í öðru lagi: Til hvaða ráðstafana verður gripið til að tryggja að ákvæðum samningsins verði fylgt eftir, og þá ekki síst að því er varðar fiskveiðiauðlindina?