144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

655. mál
[15:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mitt stutta svar gæti verið við fyrri spurningunni: Mikið — þ.e. hvert sé gildi samnings Sameinuðu þjóðanna. En ég ætla að fara aðeins ítarlegar í það en með einu orði. Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem á uppruna sinn á Ríó-ráðstefnunni árið 1992 er mjög mikilvægur alþjóðasamningur, eins og hv. þingmaður gat um, samningur um verndun náttúrunnar sem Ísland er aðili að ásamt fjölmörgum öðrum þjóðum.

Tegundum og búsvæðum er víða ógnað í heiminum. Okkur væri það ef til vill góð áminning að heimsækja sýningu í Þjóðmenningarhúsinu og virða fyrir okkur geirfuglinn uppstoppaðan. Ekki viljum við að aðrar lífverur hljóti slík örlög og því er þessi alþjóðasamningur um verndun lífs á jörðinni mikilvægur. Þetta er umfangsmikill samningur á heimsvísu sem tekur til allra þátta lífríkisins frá vistkerfum og vistgerðum til tegunda og erfðaefnis tegunda sem fjallar um verndun og sjálfbæra nýtingu. Hann hefur jafnframt haft áhrif á aðra náttúruverndarsamninga, bæði alþjóðlega og svæðisbundna, sem og þá sem lúta að nýtingu náttúrunnar. Samningurinn snertir þannig í raun marga þætti mannlegs lífs enda er svo margt í okkar athöfnum, svo sem í tengslum við samgöngur, neyslu, atvinnustarfsemi, ræktun og stefnumótun, sem varðar lífríkið og framkvæmd á hluta þess.

Það er því áhugavert ef við gætum aukið vitund þjóðarinnar um þau málefni sem samningurinn tekur til og eflt framkvæmd hans hér á landi.

Stefna Íslands um framkvæmd samningsins var samþykkt í ríkisstjórn fyrir sjö árum og framkvæmdaáætlun var svo samþykkt tveimur árum seinna, framkvæmdaáætlunin sem hv. þingmaður gat um hér áðan. Unnið hefur verið að framkvæmd stefnunnar á grundvelli þeirrar áætlunar síðan í ráðuneytinu.

Þar má nefna ýmis atriði svo sem eins og að Skógrækt ríkisins lauk nýlega við kortlagningu á náttúrulegum birkiskógum og kjarri hér á landi. Niðurstöður voru kynntar fyrir einum þrem, fjórum mánuðum, í upphafi þessa árs, og það er í fyrsta skipti frá landnámi sem nú er staðfest að birkiskógar landsins séu að stækka á nýjan leik. Við getum því sagt að hnignun þeirra sem hófst við upphaf byggðar í landinu sé lokið og birkiskógar farnir að breiðast út á ný. Þeir þekja nú hátt á annað prósent landsins. Mest hafa birkiskógar breiðst út á Vestfjörðum og Suðurlandi.

Í því sambandi má einnig nefna styrkingu ýmissa verkefna gagnvart endurheimt birkiskóga og þá sérstaklega Hekluskóga. En það eru önnur atriði sem nefna má að unnið er að samkvæmt þessari stefnu og þar eru lagðar áherslur á málefni votlendis, reglur um kjölfestuvatn í skipum, eflingu rannsókna og þekkingaruppbyggingar á sviði endurheimtar og styrkingar vistkerfa sem spillst hafa. Jafnframt er rétt að nefna vinnu við endurskoðun náttúruverndarlaga, en með þeim mun framkvæmd þessa styrkjast.

Þá langar mig til að geta um starf sem sett var á laggirnar í ráðuneytinu með öllum forstöðumönnum undirstofnana þess, þeim sem lúta að rannsóknum. Forstöðumennirnir komu sér allir saman um að efla samstarf sín á milli, í sumum tilfellum jafnvel að sameinast um ákveðna hluti, en framtíðarsýnin sem felst í þeim tillögum sem skilað var til mín er að fram fari öflugt og faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Þá eru þær líka til þess fallnar að vanda til við upplýsingamiðlun og ákvörðunartöku við viðbúnað gagnvart hvers kyns náttúruvá.

Mér finnst það afar mikilvægt skref sem þarna var tekið og fagna því mjög þessu samstarfi um aukna náttúruvá og rannsóknir.

Fyrir dyrum stendur að endurnýja stefnu í málefnum líffræðilegrar fjölbreytni í samræmi við markmiðin til ársins 2020. Ég vil benda á að Náttúrufræðistofnun hefur undanfarin þrjú ár unnið í samræmi við þetta og kortlagningu náttúru Íslands og það er stóra verkefnið sem kallað hefur verið Natura Ísland. Í því sambandi langar mig líka til þess að geta um það að Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar hafa sammælst um að vinna sameiginlega að kortlagningu, hvar þau verkefni geta skarast sem þær tvær stofnanir eru með á hendi.

Á mörgum sviðum er verið að reyna að þétta rannsóknarvinnu. Þess vegna má hafa væntingar til þess að það verði til dæmis betur mögulegt að miða friðlýsingu landsvæða, (Forseti hringir.) tegunda og almenna náttúruvernd að áherslum þessa samnings.