144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

655. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja áherslu á mikilvægi þessa samnings. Ég tel að samningurinn um líffræðilega fjölbreytni sé lykilsamningur fyrir Ísland og íslenska náttúruvernd. Ég segi það að ég tel að sú stofnun sem þar gegnir mestu hlutverki, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafi unnið mikið þrekvirki á undanförnum árum við að uppfylla ýmiss konar skyldur sem Ísland hefur gagnvart þessum samningi við tiltölulega djúpan fjárskort oft á tíðum. Það ber hins vegar að hrósa fyrrverandi umhverfisráðherra fyrir það hversu mikla rækt hún lagði við að afla fjár til þess verks.

Ég tek fullkomlega undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér og hafði úr stefnumótun forstöðumanna sinna stofnana, það skiptir mjög miklu máli að safna upplýsingum, halda áfram að kortleggja Ísland, kortleggja búsvæðin, kortleggja útbreiðslu tegunda, því að einungis sú þekking gerir okkur fært að uppfylla skyldurnar en samningurinn er í reynd (Forseti hringir.) eins konar skapalón að vel útfærðri náttúruvernd á Íslandi.