144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

656. mál
[16:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar vel afmarkaða stöðu og hlutverk samkvæmt þeim lögum sem um hana gilda, nr. 48/2011, en þar segir að hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar sé fyrst og fremst að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða. Lögin veita síðan nákvæmari leiðsögn um hlutverk verkefnisstjórnarinnar og má þar sérstaklega nefna það sem kemur fram í 9. gr. en þar segir:

„Verkefnisstjórn annast upplýsingasöfnun, faglegt mat, sbr. 4. mgr. 3. gr., og gerð tillagna til ráðherra vegna verndar- og orkunýtingaráætlunar og er samráðsvettvangur vegna hennar. Verkefnisstjórn skal skipa faghópa með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fari yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meti þá með stigagjöf og geri tillögur til verkefnisstjórnar.“

Verkefnisstjórn minnir mig stundum á skilvindu eins og var hér fyrr á tíð. Verkefnisstjórn gegnir þannig afar mikilvægu hlutverki við að undirbyggja ákvarðanatöku stjórnvalda í þeim flóknu og umdeildu málum sem rammaáætlun fjallar um. Það er rétt að aðdragandinn að rammaáætlun nær nokkur ár aftur í tímann. Á árinu 2011 voru lög um rammaáætlun samþykkt á Alþingi. Þau kveða á um hvernig fara skuli með tillögur og ákvarðanir varðandi vernd og nýtingu náttúrusvæða sem og orkunýtingu. Þessi lög um verklag og leikreglur voru samþykkt án andstöðu í þinginu og var víða fagnað sem mikilvægu skrefi í átt að því að ná sameiginlegum grundvelli um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi.

Faghópar rammaáætlunar eru skipaðir sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum vísinda og í ýmiss konar auðlindanýtingu. Í vinnu verkefnisstjórnar nú er gert ráð fyrir þremur faghópum: Faghópi 1 sem fjallar um náttúru- og menningarminjar, faghópi 2 sem fer með auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu og faghópi 3 sem fjallar um félagsleg áhrif orkunýtingar. Faghópar 1 og 2 starfa af krafti nú þegar og unnið er að stofnun faghóps nr. 3.

Rammaáætlun fjallar um margslungið hagsmunamat þar sem takast á ólík sjónarmið þar sem leiddir eru saman fagmenn úr ólíkum greinum til þess að vega saman þessi ólíku sjónarmið. Umfjöllunarefni rammaáætlunar er jafnframt flókið að því leyti að þar takast á fjölþætt sjónarmið sem eru bæði náttúrufarsleg, hagræn og félagsleg. Því er mikilvægt að sem flest fagleg sjónarmið komist að við mat á þeim hagsmunum sem liggja til grundvallar við mat og ákvarðanir um virkjunarkosti. Fagvinna við rammaáætlun er ekki þannig að einhver einn og aðeins einn sé handhafi sannleikans heldur koma saman mismunandi sjónarmið sem síðan eru lögð til grundvallar við ákvarðanatökuna.

Sem betur fer búum við við þá gæfu að eiga hér á landi afar stóran og öflugan hóp fagfólks á því sviði sem rammaáætlun nær til svo við getum þá tekið betur upplýstar og vel grundaðar ákvarðandi í þessu stóra hagsmunamáli.

Ég hef áður getið þess hér að ég vil gjarnan geta starfað samkvæmt rammaáætlun, að hún fái virkilega að njóta sín því að það er í fyrsta skipti núna sem við störfum raunverulega samkvæmt lögunum. Faghópar hafa ekki verið nýttir í þeim mæli sem segir til um í lögum þannig að ég horfi mjög til þeirrar vinnu sem verið er að vinna núna. Ég hef beðið um að við höldum okkur svolítið í eitt og hálft ár, þangað til við fáum að sjá hvernig sú verkefnisstjórn sem nú er að störfum og undirhóparnir, faghóparnir, ná að vinna úr því sem fyrir þá er lagt og þeim miklu verkefnum sem þeir hafa undir.

Það er meira en að segja það að segjast hafa löngun til þess að leita sátta í einhverju helsta deilumáli þjóðarinnar, en ég vil benda á að mér finnst líka að við eigum að skoða ýmsa ónýtta möguleika í orkuöflun sem fela í sér minna inngrip í náttúruna en stór uppistöðulón. Þá er þekking náttúrlega grundvallaratriði til þess að hægt sé að taka slíkar ákvarðanir. Ég er að tala um vindorku, ég er að tala um ölduorku eða sjávarorku eða hvað annað, hvort við ættum að setja meira fjármagn í rannsóknir á þessum sviðum. Það tók okkur mörg ár að átta okkur á því að vindorka yrði sú auðlind sem hún er og það er að koma í ljós núna.

Nýtt ferli er sem sagt hafið núna hjá verkefnisstjórninni (Forseti hringir.) og ég vona sannarlega að það skili árangri. Ég vil enda á að segja að samkvæmt mínum hugmyndum er ramminn ákveðinn ás, öðrum megin er vernd og hinum megin er nýting og svo bið í miðjunni. Ég lít svo á að höfuðið sem hugsar sé Alþingi Íslendinga.