144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

656. mál
[16:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka bara að við hófum í upphafi þessa árs nýtt ferli um rammann varðandi vinnu verkefnaáætlunar. Ég hef beðið um að hún fái frið og þeir undirhópar sem þar eru að störfum núna. Og það er alveg rétt, ég vonast til að í kringum áramót eða þess vegna fyrir árslok 2016 muni vera hægt að leggja nýja tillögu fyrir Alþingi. Ég talaði bæði um skilvindu og ás í fyrri ræðu minni og þá finnst mér jafn mikilvægt, ef eitthvað er að marka þessa vinnu, að maður taki það til verndunar og friðunar sem lendir á þeim ási, þ.e. þá kosti sem þar verða og að þeir séu þess vegna teknir frá. Með sama hætti verði þeir kostir teknir frá sem búið er að meta til orkunýtingar og þá verði hægt að hefjast handa við undirbúning á því. Biðflokkur er biðflokkur, eins og nafnið gefur til kynna, og hann verður þá tekinn til skoðunar síðar.

Ég vil ekki vera að horfa of mikið til baka. Ég veit að núna er nefnd, atvinnuveganefnd, að störfum í þessu umdeilda máli. Ég ætla ekki að gefa mér neitt um hvað fer fram á þeim nefndarfundum og vil bíða eftir að það komi hingað í þingsal. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og get endurtekið það að mér hefði fundist í lagi þó að atvinnuveganefnd hefði sett kostina þrjá í Þjórsá fram, vegna þess að þeir hafa þó nánast allir verið fullrannsakaðir og menn sem eru að störfum þar hafa sagt að það hefði vantað hársbreidd upp á að þeir hefðu getað verið búnir að skila því af sér. (Forseti hringir.) Það hef ég sagt úr þessum ræðustól og get sem sagt það hér áfram. En ég vonast svo sannarlega til að við getum núna (Forseti hringir.) breytt um vinnuaðferðir og horfum í þetta eina og hálfa ár og skoðum kosti til beggja handa og virðum þær ákvarðanir sem teknar verða.