144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu um gríðarlega stórt og mikilvægt úrlausnarefni. Við stöndum vissulega frammi fyrir mjög erfiðri stöðu á vinnumarkaði en sú staða er ekki uppi vegna minnkandi verðmætasköpunar í landinu eða aukins atvinnuleysis eða niðurskurðar til velferðarmála eða aukins ójöfnuðar. (Gripið fram í.) Nei, staðan er ekki einu sinni afleiðing af verðbólgu, þvert á móti, hagvöxtur og aukning verðmætasköpunar er einhver sú mesta sem mælist í þróuðum ríkjum. Atvinnuleysi er með því minnsta í Evrópu. Framlög til velferðarmála hafa verið stóraukin af nýrri ríkisstjórn eftir niðurskurð síðasta kjörtímabils. Ójöfnuður hefur haldið áfram að minnka þannig að misskipting á Íslandi er nú líklega orðin sú minnsta í heimi og verðbólga hefur loksins, loksins haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans til lengri tíma. Afleiðingin er mesta kaupmáttaraukning sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Það er við þær aðstæður sem upp kemur erfiðasta staða sem menn hafa séð á vinnumarkaði í áratugi.

Ég hef lengi fylgst af athygli með því sem kemur frá hinum ötula talsmanni verkafólks, Sigurði Bessasyni, formanni Eflingar. Í nýjasta tölublaði Vinnunnar, tímariti Alþýðusambandsins, er hann spurður að því hvernig menn hyggist fara út úr leiðréttingarfasanum með miklum launahækkunum og inn í stöðugleikafasa með mun minni kauphækkunum. Sigurður svarar, með leyfi forseta:

„Ég tel að okkar vandi snúi ekki bara að SA eða því hvar þeir eru staddir. Hann snýr ekki síður að okkur sem verkalýðshreyfingu. Við náum ekki að tala nógu vel saman í dag og erum með nokkuð ólíkar kröfur uppi. Eitt af því sem ég tel nauðsynlegt er að taka umræðuna um einmitt þessa spurningu; hvað svo? Nú gæti nefnilega farið í gang ferill þar sem kjarasamningar til margra ára verða í uppnámi. Það mun gerast ef við náum ekki ásættanlegri niðurstöðu núna en náum um leið að ræða hvernig við viljum sjá framtíðina á þessu sviði kjaramála. Ég vil sjá okkur fara inn á norrænu leiðina þar sem kaupmáttur er byggður upp hægt en örugglega í lágri verðbólgu og meiri jöfnuður ríkir.“

Þar hittir Sigurður sannarlega naglann á höfuðið. Það er hins vegar undarlegt að heyra nálgun stjórnarandstöðunnar á þá stöðu sem nú er uppi. Ég geri mér grein fyrir því að það er örugglega til of mikils ætlast að stjórnarandstaðan sýni mikla ábyrgð í þessari erfiðu stöðu, hvað þá að hún leggi fram lausnir því að engar hef ég heyrt úr þeirri átt, en að nota aðferðir á borð við að saka ríkisstjórnina um að eiga þátt í þessari stöðu með því að framfylgja samningum sem síðasta ríkisstjórn gerði, til að mynda samningi um að leggja af raforkuskatt eða ákvörðun síðustu ríkisstjórnar um aflagningu auðlegðarskatts, hvort tveggja ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar, áréttaðar af fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar fyrir kosningar — þetta fer greinilega fyrir brjóstið á hv. þm. Helga Hjörvar (Gripið fram í.) og skyldi engan undra þegar bent er á að það eina sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa er að kenna núverandi ríkisstjórn um að framfylgja eigin samningum.

Það er vissulega erfið staða á vinnumarkaði en gleymum því ekki að það eru líka til staðar gríðarleg tækifæri til að halda áfram að byggja á þeim árangri sem náðst hefur í landinu á undanförnum tveimur árum. Launþegahreyfingin hefur reyndar ekki farið fram á neitt frá stjórnvöldum, þvert á móti hafa menn þar á bæ tekið fram að sú sé ekki raunin, hún snúi sér að atvinnurekendum.

Þá má ekki gleyma því, virðulegur forseti, að það er hlutverk vinnuveitenda eða fulltrúa þeirra og fulltrúa launþega að semja, ekki ríkisstjórnarinnar. Það er samt ýmislegt sem ríkisstjórnin getur lagt til málanna. Ef atvinnurekendur og launþegar semja á þann hátt að það ógni ekki efnahagslífi þjóðarinnar, ýti undir verðbólgu og vegi að velferð í landinu þá mun ríkisstjórnin að sjálfsögðu geta lagt ýmislegt þarft til málanna til að auka enn á ráðstöfunartekjur fólks, en ríkisstjórnin mun ekki kasta eldiviði eða spreki á verðbólgubál ef menn gera verðbólgusamninga í stað þess að nýta tækifærin sem þeir standa frammi fyrir. Þá munu menn þurfa að skoða leiðir til þess að kæla niður þá þróun, skoða skattahækkanir fremur en skattalækkanir, aðhald í ríkisrekstri fremur en aukin útgjöld og allir vita hvað Seðlabankinn mun gera. Hann mun hækka vexti og hækka þá verulega. Afleiðingin verður enn (Forseti hringir.) meiri verðbólga, hækkun lána og snarminnkandi fjárfesting, niðurskurður hjá fyrirtækjum og þar með uppsagnir starfsmanna og aukið atvinnuleysi. Það er engin ástæða, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) til að kasta tækifærunum á glæ fyrir sviðsmynd sem þessa.