144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er verkefnisstjóri ríkisstjórnarinnar. Nú hefur ríkisstjórnin verið við völd í tvö ár og hefur haft tíma til að fara í þetta samtal, sem alltaf er verið að kalla eftir, um að skapa lagaramma sem gerir auðveldara að leysa deilur á vinnumarkaði. Það virðist ekki hafa verið forgangsmál og nú stöndum við frammi fyrir þessu.

Fyrir jólin sáu menn fram á þá deilu sem nú er til staðar á vinnumarkaði. Því var flýtt að reyna að tryggja það samtal sem þarf að eiga sér stað til að við getum breytt lagaumhverfinu, það er betra og þroskaðra annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur ekki verið gert. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu ábyrgð í þessu máli, hún getur ekki bara sagt: Þetta er ekki okkar vandamál, vinnumarkaðurinn verður að leysa þetta. Já, en það er einmitt ríkisstjórnin sem á að hafa frumkvæði að því að settur sé lagarammi sem auðveldar mönnum að leysa þetta vandamál. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert.

Ofan í þetta allt saman er talað um á verkalýðsdeginum, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi, að forgangsmálið sé að lækka raforkuskatt á álfyrirtækjum sem eru að moka gróðanum út úr landinu í krafti þess að þau séu yfirskuldsett, allt of skuldsett, og þurfa þar af leiðandi ekki að greiða jafn mikinn skatt á Íslandi og moka gróðanum út; það þarf að lækka skatt á þau fyrirtæki.

Ég er að hlusta á umfjöllun um frönsku byltinguna. Maður hugsar til þess þegar var búið að setja upp nýja stjórnarskrá, þ.e. þegar National Convention eða þjóðsamkundan var komin með stjórnarskrá, átti að afnema lénsfyrirkomulagið o.s.frv., þá sagði Loðvík XVI.: Já, nei, sko, ég er nú sammála megninu af þessu en við getum ekki verið að afnema þessi réttindi og þessi hlunnindi sem þýsku prinsarnir hafa í (Forseti hringir.) aðalsskipulaginu inn fyrir Frakkland. Þetta er svona, þetta hljómar svolítið svipað.