144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa talað í þessari umræðu. Það er eins og þeir komi frá tunglinu eða einhverjum fjarlægari hnöttum og séu ekkert í takti við þá umræðu sem er í landinu um þá alvarlegu stöðu sem er hér. Það eru verkföll, og það fer enginn í verkfall að gamni sínu, hvorki opinberir starfsmenn né það láglaunafólk sem er að berjast fyrir betri kjörum innan Starfsgreinasambandsins, 300 þús. kr. á þremur árum, sem þýða eftir þrjú ár rúmar 228 þús. kr. á mánuði til að framfleyta sér á. Það er aðeins öðruvísi ræðan sem forsætisráðherra flytur hér núna en sú sem hann flutti á flokksþingi sínu þar sem hann lýsti yfir samstöðu með launafólki í landinu og kröfum þess. Er ekki hægt að gera þá kröfu til forsætisráðherra að hann sé með sömu plötu og forrit í hausnum þegar hann talar hér við almenning í landinu eins og þegar hann talar á þingi flokksmanna? Nei, það er ekki þannig.

Ójöfnuður fer vaxandi í landinu, misskiptingin eykst og eignum á Íslandi er mjög misskipt og það er alltaf að aukast núna. Misskiptingin jókst hér fyrir hrun og nú er aftur farið á fulla ferð að auka þá gífurlegu misskiptingu sem er í landinu. Launafólk veldur ekki neinni verðbólgu í þessu landi, það eru einhverjir aðrir. Atvinnurekendur bera líka ábyrgð á því hvort þeir setji launahækkanir út í verðlagið.

Það er misskipting hérna, þar liggur vandinn. Innlegg ríkisstjórnarinnar í það alvarlega ástand sem er í þjóðfélaginu er forgangsmál hennar, það er að fella niður raforkuskatt á stóriðjunni, það er forgangsmál að afnema auðlegðarskatt, það er forgangsmál að gefa ákveðnum aðilum í landinu tugi milljarða í makrílkvóta og svo mætti áfram telja. Er þetta innlegg til þess fallið að ná sáttum í þjóðfélaginu og á vinnumarkaði? (Forseti hringir.) Matarskattur upp á 11 milljarða á ári, er hann innlegg í þetta alvarlega ástand, herra forsætisráðherra?