144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að taka þetta brennandi málefni hér upp við hæstv. forsætisráðherra. Við erum að horfa á ástand sem við höfum ekki upplifað í langan tíma, eins konar trúnaðarstund er runnin upp, blönduð miklum tilfinningum. Sá tími sem fólk hefur lagt að baki til að koma þjóðfélaginu á fætur síðastliðin ár hefur meðal annars komið niður á frítíma með fjölskyldu, húsnæðisvali og búsetu, baráttu við afborganir lána í óeðlilega háu vaxtaumhverfi — sá tími hefur reynt á þolrifin og er kominn að endimörkum. Krafan til bætta kjara er sannarlega skiljanleg.

Við slíkar aðstæður eiga staðreyndir í formi hagtalna erfitt með að ná í gegn, en það er þó þannig að hér ríkir verðstöðugleiki og kaupmáttur, samkvæmt Hagstofunni, hefur aldrei verið meiri. Í alþjóðlegum samanburði er tekjujöfnuður meiri á Íslandi en í flestum öðrum löndum. En við svo viðkvæmar aðstæður er oft erfitt að einblína á hagtölur til að ná skynsamlegri niðurstöðu.

Ef við förum fram úr þeirri verðmætaaukningu sem við horfum fram á næstu árin og án verulegrar framleiðniaukningar í atvinnulífinu verður afleiðingin kostnaðarverðbólga, það höfum við margreynt. Raunverðmætaaukning, hagvaxtarhorfur, eru 3–4% hér næstu árin. Miðað við þær spár ætti að vera hægt að ná fram myndarlegri hækkun til millitekjuhópa og hlutfallslega mestri til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þar hlýtur samstöðupunkturinn að vera, en vandinn liggur augljóslega ekki í því að hækka lægstu launin, heldur hvað eigi að gera við þann sem er með 301 þúsund og upp úr. Lykilorðin verða eftir sem áður jöfnuður, stöðugleiki og aukinn kaupmáttur. Þar berum við öll, virðulegi forseti, ábyrgð og því verða allir aðilar að koma að borðinu.