144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[16:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Undanfarin tvö ár höfum við í minni hlutanum á Alþingi mótmælt harðlega mörgum af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og velferðarmálum. Ríkisstjórnin og þeirra fólk hefur í langflestum tilfellum valtað yfir okkur undir yfirskriftinni „Meiri hlutinn ræður“.

Nú er komið að skuldadögum, því að ríkisstjórnin þarf ekki bara að fást við minni hlutann í þinginu, hér býr líka fólk fyrir utan. Það fólk er á íslenskum vinnumarkaði sem búið er að hleypa í uppnám sem ekki hefur sést hér áratugum saman.

Hver er staðan? BHM er búð að vera í verkföllum í næstum því mánuð og það fjölgar þeim félögum þar sem eru að fara í verkföll. Alþýðusamband Íslands, fram undan eru verkföll ýmissa aðildarfélaga þar. BSRB, þar er mikil undiralda og óánægja. Þar voru að losna samningar og við vitum ekki hvert framhaldið verður, en þar virðist algjörlega skorta á skilning stjórnvalda á stöðunni.

Ég vil nýta tækifærið og minna hæstv. forsætisráðherra á að í þessum samningum þarf líka að huga að því að það eru lífeyrisþegar í þessu landi, bæði ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar sem gefin voru stórkarlaleg loforð hér fyrir kosningar, en það eina sem þeir hafa fengið og borið úr býtum er kjaragliðnun. Í ríkisfjármálaáætlun, sem hér var lögð fram fyrir nokkrum vikum, sést þess ekki stað að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því verkefni sem fyrir hana hefur verið lagt, þ.e. verkefnið að stjórna landinu af ráðdeildarsemi og með tilliti til allra en ekki bara ríku vina sinna. Það er launafólk á íslenskum vinnumarkaði og lífeyrisþegar sem nú þarf að huga að og ég legg til að forsætisráðherra láti afturkalla til sín (Forseti hringir.) ríkisfjármálaáætlunina og yfirfari aðeins hvernig hann ætlar að leysa hlutverk sitt, sem er að stjórna landinu.