144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[17:09]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að viðurkenna þó, og leiðrétta þar með félaga sína í stjórnarandstöðunni, að ójöfnuður hefur ekki aukist. Hv. þingmaður nefnir reyndar eignadreifingu en ekkert hefur haft meiri áhrif þar á til góðs, að ná aftur jafnari eignadreifingu, en skuldaleiðrétting þessarar ríkisstjórnar.

Svo virðist sem hv. þingmaður hafi ákveðið að líta algjörlega fram hjá því sem ég fór yfir í ræðu minni áðan um þau tækifæri sem eru til staðar og möguleikana á því sérstaklega núna að bæta enn kjör þeirra sem lakar standa. Ástæðan er sú að stjórnarandstaðan þolir einfaldlega enga gagnrýni, þolir ekki að það sé bent á það sem nú blasir við, að hún hefur sjálf ekkert fram að færa. Ég heyrði ekki eina lausn í ræðum stjórnarandstæðinga, eingöngu áframhaldandi dylgjur og rangfærslur um ríkisstjórnina, ekki hvað síst það sem hv. fyrirspyrjandi þó fékkst til að leiðrétta, að fullyrða enn á ný að ríkisstjórnin vegi að þeim sem hafa lakari kjör þegar staðreyndin er allt önnur. Þeir sem hafa lakari kjör á Íslandi og millitekjur hafa aldrei staðið jafn vel og nú. Það þýðir ekki að það sé nógu gott ástand, það þýðir þvert á móti að við getum gert enn betur en til þess þurfum við að fallast á að tækifærin séu til staðar og viðurkenna staðreyndir eins og þá að kaupmáttur er sá mesti sem hann hefur mælst á Íslandi og jöfnuður í tekjudreifingu hefur heldur ekki mælst meiri en nú.

Það er ástæða til að hafa þetta í huga vegna þess að við viljum ekki kasta þessu á glæ með verðbólgusamningum. Á hverjum bitna slíkir samningar verst? Þeir bitna fyrst og fremst á fólki með milli- og lægri tekjur vegna þess að atvinnurekendurnir geta verið fyrri til að hækka verð, þeir sem semja sérstaklega um sín kjör geta verið fyrri til að hækka laun sín á meðan þeir sem eru með lægstu launin þurfa að elta. Verðbólgusamningar bitna fyrst og fremst á þeim sem hafa lökustu kjörin. Og það að koma í veg fyrir verðbólgusamninga er fyrst og fremst til þess fallið að verja hag og stöðu þeirra sem hafa lökust kjör í samfélaginu. Það er fráleitt af stjórnarandstöðunni að gera (Forseti hringir.) lítið úr því vegna þess að um það snýst þetta, að verja stöðu þeirra sem hafa lökust kjörin á Íslandi. (Gripið fram í: Engar lausnir.) (Gripið fram í.)