144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara rétt á þeirri mínútu sem ég hef til þess að blanda mér í þessa fyrirspurn og umræðu benda á að síðastliðinn fimmtudag mæltum við hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fyrir frumvarpi um uppljóstrara, heildarlöggjöf sem unnið hefur verið að frá því á síðasta kjörtímabili, sem nær vel utan um þennan málaflokk. Það er löggjöf sem býr til réttarvernd fyrir uppljóstrara eða afhjúpendur og er eitt af þeim tólum sem nauðsynlegt er að séu í verkfærakistu lýðræðisins. Það hafa atburðir bæði hér heima og erlendis sýnt okkur í gegnum tíðina. Það er afar brýnt að við sammælumst um að setja löggjöf um þetta mál og þá gildir einu hvort það er sú heildarlöggjöf sem við höfum kynnt til sögunnar í minni hluta þingsins (Forseti hringir.) eða frumvarp hæstv. forsætisráðherra. Það hlýtur að vera hægt að samnýta þá vinnu sem þar hefur verið unnin, en brýnast er að koma þessu í verk.