144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

vernd afhjúpenda.

380. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Eins og ég kom inn á í mínu máli var hafin vinna hóps við þetta frumvarp í forsætisráðuneytinu veturinn 2012–2013 þannig að vitaskuld hefði maður viljað sjá frumvarp koma fram talsvert fyrr, ekki síst vegna þess sem ég nefndi líka, að það byggir á þingsályktun sem var samþykkt 2010. Þetta hefur allt átt alllangan meðgöngutíma, verð ég að segja.

Hins vegar voru svör hæstv. ráðherra ágætlega skýr, þ.e. að slíkt frumvarp komi fram í haust, en ég hvet hann til að skoða það frumvarp sem hv. þm. Róbert Marshall gerði að umtalsefni í athugasemd sinni, þ.e. hvort þessi löggjöf megi jafnvel verða heildstæð þannig að hún eigi ekki aðeins við um hinn opinbera geira eða stjórnsýsluna, eins og frumvarp hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir, heldur hafi víðtækari áhrif.