144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl. Markmið frumvarpsins er að gera fjármálamarkaðinn traustari og efla varnaðaráhrif við brotum á fjármálamarkaðnum. Þá verður með frumvarpinu stigið skref í þá átt að samræma löggjöf hér á landi við reglur á fjármálamarkaði Evrópusambandsins sem falla innan gildissviðs samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eins mun frumvarpið, verði það að lögum, efla úrræði eftirlitsaðila á fjármálamarkaði en trúverðugt eftirlit þar sem tekið er á brotum á markvissan hátt skiptir miklu máli við að auka traust á fjármálamarkaði. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á flestum þeim lögum sem gilda á fjármálamarkaði.

Í fyrsta lagi er lagt til að styrkt verði heimild til að gera lögaðilum refsingu fyrir brot gegn lögum á fjármálamarkaði. Sambærileg ákvæði voru sett í lög um gjaldeyrismál vorið 2014 og er í frumvarpi þessu lagt til að tekin verði af tvímæli um að heimilt verði að refsa lögaðilum fyrir brot á annarri löggjöf á fjármálamarkaði með sama hætti.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að breytingar verði gerðar á stjórnsýsluviðurlögum í tilteknum lögum á fjármálamarkaði. Trúverðugt eftirlit þar sem tekið er á brotum á markvissan hátt er eins og áður segir órjúfanlegur hluti af traustum markaði. Til að tryggja traust og trúverðugleika markaðarins eru opin samskipti og fyrirbyggjandi eftirlit lykilatriði en einnig verða að vera til staðar úrræði til að taka á brotum gegn lögum. Í framkvæmd er erfitt að taka öll brot til opinberrar rannsóknar og refsimeðferðar vegna fjölda þeirra og þess tíma sem það tekur að ljúka máli vegna rannsóknar, ákæru og dómstólameðferðar. Hér geta stjórnsýsluviðurlög komið að gagni sem skilvirkari og kostnaðarminni úrræði samanborið við hefðbundnar refsingar. Þeim er beitt til að refsa fyrir minni brot á fjármálamarkaði, þ.e. þegar ekki þarf að kæra mál til lögreglu. Það hvort máli megi ljúka með stjórnvaldssekt eða verði kært til lögreglu er á endanum háð mati Fjármálaeftirlitsins á því hvort brot teljist meiri háttar eða ekki samkvæmt viðkomandi lögum.

Mikilvægt er að fjárhæðir stjórnsýslusekta séu endurskoðaðar reglulega til að þær nái tilgangi sínum en fjárhæðir í núgildandi lögum eru frá árinu 2007. Vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á fjármálaumhverfi síðustu ár og þróun verðlags þykir tímabært að leggja til breytingar nú. Í frumvarpinu er farin sú leið að leggja til að fjárhæðir stjórnvaldssekta sem leggja megi á lögaðila séu veltutengdar og er lagt til að hámark stjórnvaldssektar sem leggja megi á lögaðila geti orðið 10% af heildarveltu hans á sl. rekstrarári. Lagt er til að efri mörk fjárhæða stjórnvaldssekta verði 65 millj. kr. hjá einstaklingum og verða mörkin þau sömu í öllum lögum á fjármálamarkaði. Tillaga um veltutengingu stjórnvaldssekta er í samræmi við ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins þar sem kveðið er á um að aðildarríki skuli tryggja að eftirlitsaðilum sé heimilt að veltutengja stjórnvaldssektir vegna brota lögaðila. Þessar tilskipanir munu verða hluti af EES-samningnum og mun verða fullt samræmi á milli þeirra og íslenskra laga. Veltutenging stjórnvaldssekta er ekki ný af nálinni þar sem hún er nú þegar í íslenskum lögum og er slíkt ákvæði t.d. í samkeppnislögum. Veltutengingu sekta er ætlað að tryggja að hlutfallslegt samræmi sé á milli álagningar stjórnvaldssekta og umfangs afbrotsins. Eftir sem áður þarf að gæta jafnræðis við álagningu sekta og að framkvæmdin sé samræmd, markviss og hófleg.

Ég ítreka að stjórnsýsluviðurlög koma aldrei í stað refsingar en refsing liggur við alvarlegustu brotunum á fjármálamarkaði.

Í þriðja lagi er lagt til í þessu frumvarpi að það varði sektum eða fangelsi allt að sex árum að brjóta gegn ákvæðum um takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum í lögum um fjármálafyrirtæki. Sex ára refsirammi er nýmæli í lögum en fordæmi er fyrir sex ára refsingu við brotum í lögum um verðbréfaviðskipti gegn tilteknum ákvæðum laganna. Þetta er sem sagt nýmæli í lögum um fjármálafyrirtæki.

Reglur um takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum eru settar til að draga úr samþjöppun áhættu hjá fjármálafyrirtækjum og snúast um áhættu gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum en ekki gagnvart fjármálakerfinu sem heild. Áhætta eins eða fleiri innbyrðis tengdra aðila getur þó verið í hámarki hjá tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum samtímis með tilheyrandi hættu á keðjuverkun ef fyrirtækin lenda í fjármagnsvandræðum. Fyrir fjármálahrunið 2008 mynduðu stórir hópar tengdra lántakenda innan bankanna mikla kerfislega áhættu sem var meðal annars talin hafa átt þátt í því að fjármálakerfi landsins varð fyrir áföllum haustið 2008. Með tilliti til undangenginna atburða á fjármálamarkaði og það hversu alvarlegar og víðtækar afleiðingar brot á reglum um takmarkanir á mikilli áhættu geta haft á fjármálamarkaðinn og efnahagslíf landsins er mikilvægt að refsiramminn verði hækkaður verulega og því er sex ára fangelsi lagt til.

Í fjórða lagi er lagt til að í þessum sömu lagabálkum bætist við atriði sem Fjármálaeftirlitinu beri að líta til við ákvörðun stjórnvaldssekta. Þau atriði sem líta ber til eru ábyrgð hins brotlega hjá lögaðilanum, fjárhagsstaða hins brotlega, ávinningur af broti eða tapi sem forðað er með broti, hvort brot hafi leitt til taps hjá þriðja aðila og hvers konar möguleg kerfisleg áhrif brotsins.

Virðulegi forseti. Að lokum er í fimmta lagi lagt til að í lög um fjármálafyrirtæki og lög um verðbréfaviðskipti bætist við heimild til að ákvarða stjórnvaldssekt með hliðsjón af fjárhagslegum ávinningi hins brotlega. Heimildin leiðir til þess að fjárhæð stjórnvaldssektar getur orðið tvöföld miðað við þann fjárhagslega ávinning sem hinn brotlegi hafði af brotinu.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það auka trúverðugleika eftirlitsaðila og stuðla jafnframt að traustari fjármálamarkaði. Eftirlitsaðilar munu hafa fleiri úrræði til að taka á brotum og gera má ráð fyrir að breytingar á stjórnsýsluviðurlögum muni efla varnaðaráhrif við brotum gegn löggjöf á fjármálamarkaði. Önnur áhrif eru þau að stigin eru skref í að laga löggjöf hér á landi að reglum á fjármálamarkaði sem falla innan gildissviðs EES-samningsins og verði því frekar unnt að koma í veg fyrir eftirlitsvanda og freistnivanda svo að fyrirtæki kjósi ekki að starfa frekar í öðru landi þar sem viðurlagaheimildir eru vægari. Oft er það nefnt eftirlitshögnun sem er tilraun til að þýða enska heitið á því þegar menn velja að hafa starfsemi sína í því landi þar sem eftirlitið er vægast og jafnframt refsingar við brotum. Í því getur falist veikleiki fyrir allt kerfið, bæði fyrir einstök ríki en ekki síður fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið á viðkomandi sviði um leið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.