144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:46]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fyrr í dag svaraði hæstv. forsætisráðherra fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um löggjöf um afhjúpendur, sem er í smíðum í forsætisráðuneytinu, og verður frumvarp þess efnis að því er mér skildist á svari hæstv. forsætisráðherra lagt fram í haust. Þá kom fram og ég greindi frá því að fyrir þinginu liggur frumvarp um heildarlöggjöf sem við í þingflokki Bjartrar framtíðar ásamt þingflokki Pírata höfum lagt fram um uppljóstrara. Í greinargerð með þessu frumvarpi er sagt frá nefndinni sem undirbjó þessa löggjöf, að hún hafi skoðað löggjöf um uppljóstrun í Danmörku, Bretlandi, Liechtenstein og á Möltu og eftir þá skoðun og með hliðsjón af því að í Noregi og Svíþjóð sé nú unnið að lagabreytingu um að taka upp ákvæði um uppljóstrun taldi nefndin að bíða ætti með lagabreytingar hér á landi og fylgjast með þróun mála í nágrannalöndum.

Það virðist vera eins og það sé ekki næg (Forseti hringir.) heildarsýn í málaflokkum hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Getur hann útskýrt þetta?