144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hefur reynt með nýjum og áður óþekktum hætti á þetta lagasvið á undanförnum árum. Þegar kemur að starfsemi fjármálafyrirtækja gilda reyndar til viðbótar hinum almennu reglum sérreglur um til dæmis bankaleynd og þess vegna þarf að taka á þessu. Það kom svo sem ekkert í veg fyrir það í miðju hruni bankanna að það lækju út heil ósköpin öll af upplýsingum og gögnum. Ég minnist þess til dæmis að lánabók eins bankans var gerð opinber á veraldarvefnum. Þess utan fórum við þá leið hér í þinginu að létta af öllum trúnaði í þágu rannsóknar sem farið var í og með rannsóknarheimildunum sem rannsóknarnefnd Alþingis fékk (Forseti hringir.) eigum við að geta verið nokkuð viss um að það voru engar lagalegar hindranir varðandi það sem gerst hefur alla vega, en til framtíðar litið þá (Forseti hringir.) tek ég undir það með hv. þingmanni að við þurfum að ná utan um þetta viðfangsefni.