144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hugmyndin að veltitengingu gagnvart lögaðilum er meðal annars fengin úr Evrópuréttinum og við væntum þess að það verði hluti af Evrópska efnahagssvæðinu að fara þá leið.

Það er kannski ekki til einhlítt svar við síðari spurningunni en það er þó þannig að þegar brot eru metin mjög alvarleg er ekki farin leið stjórnvaldssektar heldur er farið í kæru og eftir atvikum í framhaldinu ákæru á hendur viðkomandi. Þannig mundu fjárhæðarmörkin og veltutengingarhámarkið leiða til þess í allra stærstu brotunum — það leiðir af umfangi máls að það er metið svo alvarlegt að því verður ekki lokið með stjórnvaldssekt.