144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var alfarið mín ákvörðun í ráðuneytinu að taka þessi mál saman til skoðunar í þeirri nefnd sem fékk það hlutverk. Það má segja að uppfærsla á fjárhæðarviðmiðum, veltutenging, auknar eftirlitsheimildir og annað slíkt sé að verulegu leyti óskylt og óháð hugmyndum um breytingar á lögum fyrir uppljóstrara en engu að síður taldi ég ástæðu til að það yrði skoðað saman.

Það var niðurstaðan í nefndinni sem hafði það verkefni að skila af sér frumvarpi, sem ég er hér að leggja fram, um öll fyrrnefndu atriðin. Nefndin taldi hitt verkefnið verða tímafrekara og ég ákvað þess vegna að tefla frumvarpinu fram en halda áfram að fylgjast með hinu. Það er áfram á dagskrá. Mér er ekki kunnugt um það nákvæmlega hvernig þessi vinna stendur á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) en það er meginniðurstaða nefndarinnar í stuttu máli að á þessu sviði sé mjög mikil gerjun og gagnlegt fyrir okkur að sjá hvar menn lenda með hugmyndirnar í nágrannalöndunum. Þá getum við kannski lært eitthvað af þeirri vinnu og þeirri umræðu sem þar fer fram.