144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[17:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það var náttúrlega skynsamlegt hjá hæstv. ráðherra að taka þetta saman ef þarna er verið að leggja til að refsa skuli fólki fyrir að misfara með eitthvað, brjóta lög o.s.frv. En það vantar þá oft upplýsingarnar og það þarf að vera til lagarammi sem hvetur fólk til að koma fram ef verið er að brjóta lög að þessu leyti. Það er því að sjálfsögðu skynsamlegt að taka þetta saman.

Það var haldin ráðstefna á vegum ráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins, held ég alveg örugglega, í Súlnasalnum haustið 2013. Einn af frummælendunum hélt erindi, prófessor frá Bandaríkjunum, og talaði um hvernig það er þar í landi ef menn upplýsa um skattsvik o.s.frv.. Ef þetta eru brot sem kosta fá menn hlutfall af því sem það sparar ríkinu. Hann sagði: Þú ert svartur sauður en þú ert alla vega ríkur svartur sauður fyrir að hafa gert þetta. (Forseti hringir.) Þetta er meðal annars til að tryggja fjárhagslegan grundvöll þeirra sem þurfa að ljóstra upp um svona mál. (Forseti hringir.) Þeir geta ekki gert það í krafti leyndar heldur verða að koma fram.