144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Það er auðvitað mikilvægt, sérstaklega eftir að hafa farið í gegnum efnahagshrun eins og við, að fara í gegnum viðurlög á fjármálamarkaði og raunar ekki síður að virkja stöðu uppljóstrara og er ljóður á málinu að ekki skuli hafa verið tekið á því í þessari ferð.

Það vekur hins vegar athygli mína að niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er að Fjármálaeftirlitið hafi út af fyrir sig fyrir efnahagshrunið ekki skort valdheimildir til að taka á brotum eða öðrum þáttum í starfsemi fjármálafyrirtækja og þar með talið ekki skort heimildir til stjórnvaldssekta. Það sem hafi skort á hafi verið að Fjármálaráðuneytið beitti þeim heimildum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála því mati rannsóknarnefndar Alþingis að ekki hafi skort á heimildirnar heldur á beitingu þeirra og hvort það sé eitthvað í þessum málatilbúnaði sem hafi áhrif á það.