144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er komið inn á aðeins óskylt mál en gott og vel. Við erum að ræða það að beita stjórnsýslusektunum í auknum mæli og það er þá fyrst og fremst í þeim tilgangi að ekki þurfi ávallt að fara kæru- og ákæruleiðina.

Varðandi það sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hygg ég að okkur sé öllum ljóst að bankarnir höfðu vaxið langt út fyrir eftirlitsgetu Fjármálaeftirlitsins, jafnvel þótt finna megi einhver dæmi þess að eftirlitið hefði átt að grípa inn í. Ég er ekki nægilega vel að mér um einstök tilfelli til að úttala mig um það hvort slík dæmi hafi verið augljós. En mér sýnist nú á öllu að stærð bankanna hafi verið slík að verkefnið var að verða Fjármálaeftirlitinu ofvaxið.