144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er ósanngjarnt en það má kannski segja að við getum skipt þessum málum í tvennt og dregið skil á milli fyrir og eftir bankahrun. Það voru settir auknir fjármunir í Fjármálaeftirlitið, og voru þeir nýttir til að Fjármálaeftirlitið beitti sér á þessu sviði? Ég verð að segja fyrir mitt leyti, mér sýnist það nú hafa verið. Ég man ekki tölurnar nákvæmlega en ég hygg að Fjármálaeftirlitið hafi kært til sérstaks saksóknara á annað hundrað mál. Það er síðan annað hvað varð úr þeim málum hjá sérstökum saksóknara. Það ætti kannski að taka það til skoðunar hversu margar kærur leiddu til þess að einhver fékk réttarstöðu grunaðs, til þess að mál væri rannsakað og síðan í framhaldinu gefin út ákæra. (Forseti hringir.) Og hvert var hlutfallið þarna? Ef ákæruhlutfallið er mjög lágt má jafnvel draga þá ályktun að menn hafi gengið fulllangt í því að kæra.