144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé ánægjulegt að þetta frumvarp sé komið fram. Það má líta á það sem eitt púsl í mjög stórri mynd sem er það viðfangsefni að fara í gegnum alla löggjöf á sviði fjármálamarkaðar sem má segja að hafi staðið yfir meira og minna frá árinu 2009, enda kom í ljós og allir vita að ekki var vanþörf á.

Hér er verið að fara yfir, samræma og uppfæra viðurlagaákvæði vegna brota á lögum í starfsemi á þessu sviði, á sviði fjármálaþjónustu af ýmsum toga. Að sjálfsögðu er skynsamlegt að fara yfir sviðið í heild sinni og flestöll lög sem hér koma við sögu, lög um gjaldeyrismál, um rafræna skráningu verðbréfa, um vexti og verðtryggingu og um fjármálafyrirtæki og fleiri. Kosturinn við að fara í málið með þessum hætti er að þá verður sæmilegt samræmi í viðurlagaköflum þessarar löggjafar, mismunandi þáttum um fjármálaþjónustu.

Það fyrsta sem er hér efnislega á ferðinni er að styrkja ákvæðin um sekt, að gera megi lögaðilum sekt vegna brota. Sambærilegt orðalag er sett inn í flestöll þau lög sem hér eru opnuð upp í bandorminum, að gera megi lögaðilum refsingu fyrir brot án tillits til þess hvort brotið er sannanlegt á einstakan starfsmann eða forsvarsmann lögaðilans. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt ákvæði og liggur í hlutarins eðli að sé þetta ekki hægt og að beina verði sjónum að einstökum forsvarsmönnum eða starfsmönnum í hverju tilviki þá torveldast málið mjög. Ég sakna þess reyndar að í greinargerð með frumvarpinu skuli ekki vera veittar meiri upplýsingar um það liðna í þessum efnum og í hvaða mæli þetta hefur verið mönnum fjötur um fót á undangegnum árum. Ég hef ástæðu til að ætla að það hafi uppgötvast að svona ákvæði vantaði í lög um gjaldeyrismál og það hafi ekki auðveldað Seðlabankanum að taka á málum sem þar hafa komið upp.

Ég er einnig sammála meginstefnunni sem hér er valin að reyna eins og kostur er að útkljá minni háttar mál eða mál sem ekki eru það alvarleg, þar sem ekki blasa við svo alvarleg meint brot að þeim verði að vísa frá beint til lögreglu, með stjórnvaldssektum eða stjórnvaldsviðurlögum. Þannig er það iðulega í löndunum í kringum okkur og þá eiga menn þann kost að útkljá málin, komast að einhverri niðurstöðu um það og þeir sem það kjósa og vilja geta þá unað sektinni og eru þar með lausir mála í stað þess hugsanlega að sitja uppi með stöðu sakborninga árum saman og málin geta þvælst lengi fyrir áður en niðurstaða fæst fyrir dómi. Ég hygg að það hafi einmitt verið vandamál á nokkrum stöðum í löggjöf á þessu sviði að vantað hafi þau úrræði sem eru til staðar og hafa t.d. verið til staðar lengi hvað varðar skattalagabrot, að semja um lausn mála og útkljá þau þannig, stundum einfaldlega með því að kippa hlutum í liðinn, stundum með því að menn borgi og geri upp. Það er að sjálfsögðu skynsamlegt að reyna að hafa slík tæki tiltæk í lögum af þessu tagi.

Í öðru lagi er vikið að því í greinargerðinni, svo ég haldi mig nú við uppsetninguna og upptalningu atriða í greinargerð með frumvarpinu, að niðurstaðan er ekki sú þrátt fyrir að nefndin hafi haft það til skoðunar að setja inn einhvers konar uppljóstrunarákvæði. Það hefði verið kostur að landa því í þessari umferð með sömu rökum og ég færði fram um viðurlögin, menn hefðu getað samræmt ákvæði um slíkt inn í mismunandi löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Að sjálfsögðu, ef til sögunnar koma einhvers konar almenn lög sem vernda uppljóstrara, þá taka þau til löggjafar á sviði fjármálamarkaðar en það kann að vera eins og hæstv. ráðherra reyndar nefndi að í vissum tilvikum þurfi að líta til sérstaks eðlis þessarar starfsemi. Hér er vísað í það að tilskipun sé á leiðinni og unnið sé að lagabreytingum til að taka upp ákvæði tilskipunar frá 2013 í nágrannalöndunum og menn hyggist bíða eftir því hér og fylgjast með þróun mála að þessu leyti hjá nágrannalöndunum, en vonandi verður sú bið ekki allt of löng.

Í þriðja lagi eru það sektarheimildir. Þar er vitnað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og það er reyndar gert á nokkrum stöðum í tengslum við þetta mál og er ekki að undra. Það er ágætt að menn hafi haft hana til hliðsjónar þegar þeir voru að vinna þetta en þar kemur einmitt fram sem er umhugsunarefni að það átti að heita þannig að í aðalatriðum væri löggjöf okkar um eftirlitsheimildir og viðurlög sambærileg því sem gerðist í nágrannalöndunum, eðlilega, því við höfðum innleitt að stærstum hluta til evrópskar reglur í þeim efnum. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis varð sú að í sjálfu sér hefði vandinn ekki fyrst og fremst verið sá að skort hefði heimildir, heldur að þær voru ekki notaðar. Fjármálaeftirlitið hafði til dæmis sterkar heimildir til að beita sér, það kom í ljós þegar þetta var skoðað að þeir höfðu nægilegar valdheimildir til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni og starfsemi en það vakti mikla athygli hversu sjaldan þær voru notaðar, hversu sjaldan þeim var beitt.

Hæstv. ráðherra ræddi hér um tímann eftir hrunið og að Fjármálaeftirlitið hefði þá sent tugi og aftur tugi og reyndar eitthvað yfir 100 mál til rannsóknar. Ég tel að þar hafi Fjármálaeftirlitið einfaldlega verið að gera skyldu sína og setja það svo í hendur ákæruvaldsins til að skoða hvort málin færu áfram. Þar voru menn þó að nota heimildirnar en þeir voru að gera það eftir á gagnvart þegar orðnum hlutum, hitt hefði auðvitað verið miklu betra ef þeir hefðu verið vakandi og á verðinum á árunum fyrir hrunið og gripið þá í taumana. Þegar fjallað er um stórar áhættustöður í kerfinu, þar sem aftur er vikið að niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, er það auðvitað sorgleg lesning hvernig þær svakalegu stöður mynduðust. Að einhverju leyti var þar blekkingaleikur á ferð, það er rétt, en var Fjármálaeftirlitið á Íslandi virkilega svona illa upplýst, var það svona fjarlægt veruleikanum þótt flókinn væri að þessi gríðarlegu krosseignartengsl og stöður sem mynduðust í kerfinu færu fram hjá þeim, neðan við nefið á þeim, að menn áttuðu sig ekki á því að feðgar væru tengdir svo dæmi sé tekið? Það er alveg ótrúlegt en þannig var þetta og fjöldi dæma nefndur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að bankarnir reyndu að komast fram hjá reglunum.

Þess vegna tek ég undir það sem hér var sagt og ætlaði einmitt að leggja á það áherslu að svo ágætur sem þessi lagarammi kann að vera þá skiptir náttúrlega mestu máli að tækin og tólin séu notuð. Það er ekki nóg að innleiða sterkar eftirlitsheimildir og eftir atvikum sterk viðurlög þó að það hafi að sjálfsögðu gildi og þá kannski sérstaklega að hækkun sektarfjárhæða hafi fyrirbyggjandi áhrif, varnaðaráhrif, við skulum reikna með því að það geri það í einhverjum mæli og tekið sé fast á brotum gegn löggjöf á fjármálamarkaði en það þarf líka að fylgja öflugt eftirlit og það má ekki láta menn komast upp með neinn moðreyk gagnvart því að fara að reglunum og finna ekki leiðir til að sniðganga þær eins og dæmin sanna.

Það mun bíða okkar frekari vinna í þessum efnum eins og sjá má af því að hér er eingöngu að hluta til verið að innleiða nýlegar reglugerðir og tilskipanir frá Evrópu á þessu sviði og þar af leiðandi er hér alls ekki um fulla samræmingu þeirra að ræða. Sérstaklega eru það gerðirnar sem tengjast nýju eftirlitsstofnunum á fjármálamarkaði en innleiðing þeirra hefur reynst tafsöm fyrir Evrópska efnahagssvæðið af ástæðum sem ýmsir þekkja hér. Þó er boðað að á grundvelli samkomulagsins frá því í fyrrahaust styttist í að þetta verði tekið upp í EES-réttinn og menn telja að þeir hafi fundið leiðir fram hjá stjórnarskrám Íslands og Noregs í þeim efnum og þá verður viðfangsefnið að innleiða þær gerðir að fullu þótt þær komi kannski meira við önnur ákvæði en þau sem hér eru undir, þ.e. refsi- og viðurlagaákvæðin.

Síðan vil ég nefna í sambandi við stóru áhættustöðurnar og sektarfjárhæðirnar ákvæði um veltutengingu viðurlaga og að horfa til fjárhagslegs ávinnings af broti, sem ég tel að séu mjög mikilvæg ákvæði, og að nýta væntanlega til fulls eða a.m.k. í verulegum mæli rammann eins og hann er í Evrópulöggjöfinni. Að sjálfsögðu ráðum við okkar sektarákvæðum sjálf og hér er farin sú leið að tengja brot á stórum áhættum við hámarksrefsirammann eins og hann er settur upp í lögunum við sex ára fangelsi, enda litið á þau sem hvað alvarlegust brot. Þau eru það svo sannarlega enda skapa þau stórfellda hættu til viðbótar mögulegum ávinningi sem menn eru kannski að reyna að hafa af því að hygla einstökum aðilum eða leyfa þeim að mynda mjög stóra stöðu í viðkomandi fyrirtæki. Í aðalatriðum held ég að sé ágætlega um þetta búið að þessu leyti í frumvarpinu.

Hvort þetta svo dugar okkur, dregur eitthvað í þeim efnum að skapa það traust á fjármálamarkaði sem hér er tíundað sem eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins skal ósagt látið. Örugglega hjálpar það að löggjöfin sé skýr í þessum efnum og allir viti að það skorti hvorki upp á refsirammann né heimildir eftirlitsaðila til að reyna að sjá um að hlutirnir séu í lagi, en ég verð að segja að það mæðir mig á köflum þessa mánuðina, án þess að ég ætli að nefna dæmi að sjálfsögðu, en ég get ekki sagt annað sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd og hafandi hrært í þessu nokkur undanfarin ár að mér finnast bæði sum erindi sem til okkar koma og sumar gestakomur vekja vissan ugg um að ýmislegt vilji fara að síga í sama farið. Það er ansi oft sem það er farið að gerast að nú koma menn inn og kvarta undan því að ýmislegt sem var innleitt í löggjöf eftir hrun, að gefnu tilefni og ekki að ástæðulausu eins og þetta fór með okkur, sé kannski óþarflega strangt og nú megi byrja að slaka á. Það er greinilega kominn sá tónn og tíðarandi upp á ákveðnum stöðum í þjóðfélaginu að nú sé óhætt að fara að bakka aftur í áttina að 2007 í ýmsum skrefum. Þetta frumvarp, ég tek það fram, er að sjálfsögðu ekki af þeim skóla, þvert á móti. Hér er verið að treysta að ýmsu leyti í sessi viðurlagaákvæðin og setja þau í samhengi við alvarleika brota eða ávinninginn af þeim eða veltu viðkomandi aðila. Ég held að það sé alveg hárrétt og löngu tímabært að sektirnar séu þannig að þær bíti og til þess að þær geri það þurfa þær að vera í rökréttu samhengi við umfang viðskiptanna hjá þeim sem í hlut á eða ávinninginn af broti.