144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu sem skyggndi þetta frumvarp nokkuð vel fyrir mér. Það kom svipað fram í máli hv. þingmanns og í andsvari hv. þm. Helga Hjörvars fyrr í umræðunni, að viðurlög hefðu verið til staðar þegar kom fram undir bankahrunið en líkast til hefði þeim ekki verið beitt í nægilegum mæli. Vissulega er það sorgleg upprifjun sem er að finna hér í greinargerðinni á niðurstöðum úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er beinlínis sagt frá því að áhætta og lög um áhættu hafi jafnan verið túlkuð mjög þröngt hjá fjármálafyrirtækjum og ekki síst þegar um var að ræða tengda aðila sem fóru saman með stóran hlut í þessum fyrirtækjum. Þar kemur líka fram að fjármálafyrirtækin hafi ekki virt ábendingar og sömuleiðis hafi þau reynt að skæklatogast með mál í samræðum við Fjármálaeftirlitið. Allt hafi þetta að lokum leitt til þess að í óefni var komið þegar menn vildu grípa til þeirra viðurlaga sem þó var að finna í lögunum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta frumvarp sé að ýmsu leyti stór framför. Þá nefni ég þar sérstaklega tvennt: Í fyrsta lagi er verið að reisa vöndinn hærra með því að sýna þeim sem hugsanlega gætu reynst brotlegir fram á að þeirra bíður miklu strangari refsing en áður og í öðru lagi tel ég að það að heimila sektir og veltutengja þær allt að 10% veltu undangengis árs sé mikill vöndur sem blasir við mönnum sem fara sér háskalega.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann ekki að þetta sé framför að þessu leyti? Hvað segir hann um það hvort þetta hefði haft áhrif ef þessi ákvæði hefðu verið í gildi árið 2008?