144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni ræðuna. Ég ætlaði að koma inn á það sem hann ræddi fyrst í ræðu sinni, þ.e. í allmörgum greinum frumvarpsins er verið að styrkja heimildir til að refsa lögaðilum fyrir brot gegn löggjöf á fjármálamarkaði. Það hefur náttúrlega verið þannig að erfitt hefur verið eða nánast ekki hægt að gera lögaðila ábyrga án þess að það væri einhver fyrirsvarsmaður, starfsmaður eða annar á hans vegum sem hægt væri að sanna á brot.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann sem þekkir vel þetta umhverfi þótt flókið sé hvaða áhrif þetta muni hafa og hvort það hefði breytt einhverju ef svona heimildir hefðu verið í lögum vegna mögulegrar refsiábyrgðar í kjölfar hrunsins. Svo velti ég því líka fyrir mér ef svo hefði verið og við hefðum sektað, hvar slíkar sektir hefðu lent í forgangsröð í kröfubú hinna föllnu lögaðila. Ég held að áhugavert sé að velta því fyrir sér og hvort þetta muni yfir höfuð einhverju breyta og hvort það hefði breytt einhverju við hrun bankanna.