144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eina dæmið sem ég tel mig þekkja til og veit að hefur valdið vandkvæðum að ekki voru í lögum ákvæði sem höfðu með að gera sekt á lögaðilann eða beina máli að honum beint er t.d. lög um gjaldeyrishöft eða lög um gjaldeyrismál og meint eða möguleg brot á þeim lögum. Auðvitað er einfaldasta leiðin til að koma slíku máli að að geta gert lögaðilann sjálfan ábyrgan, fyrirtækið sjálft ábyrgt.

Nú er þetta gjarnan þannig að niðurstaðan getur orðið sekt gagnvart hvorum tveggja, lögaðilanum og svo forsvarsmanni eða starfsmanni sem brot sannast á, hann getur að sjálfsögðu sætt refsingu um leið og lögaðilanum verður gerð sekt. Það held ég að sé einmitt hið rétta fyrirkomulag. Þá ræðst það af eðli máls og alvarleika brotsins hvort menn telja óumflýjanlegt að ákæra viðkomandi ef hann hefur beinlínis framið saknæmt athæfi en lögaðilinn getur jafnframt sætt sekt þannig að upp að vissu marki er aðhaldið tvöfalt. Viðkomandi starfsmenn, yfirmenn verða alltaf að vera undir það búnir að störf þeirra geti sætt skoðun af þessu tagi, hvort þeir hafi farið í einu og öllu að lögum og fyrirtæki sem þeir vinna hjá, lögaðilinn sem þeir starfa hjá, getur líka fengið á sig sekt og það sekt sem um munar. Við verðum að hafa í huga að hér geta fjárhæðirnar orðið mjög háar, enda getur meintur ávinningur orðið mjög mikill.

Ég mundi ætla að sektir sem hefðu verið lagðar á starfandi aðila eða aðila sem enn voru til staðar í einhverjum mæli sem lögaðilar, sem gæti átt við um þrotabú, hefðu orðið eins og eftir á ákvarðaðir skattar eða aðrar slíkar forgangskröfur, lent einhvers staðar inni í forgangskröfuröðinni eins og rekstrarkostnaður búsins, ógreidd laun eða annað.