144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt þegar einstaklingar lenda í þungbærri reynslu að unnið sé vel úr henni og með sama hætti er það líka mikilvægt þegar heil þjóð lendir í erfiðri reynslu, að hún vinni með þokkalegum hætti úr því. Ég tel að bankahrunið hafi skilið mjög djúp sár hjá mörgum einstaklingum og sömuleiðis hefur íslenska þjóðin staðið frammi fyrir miklu verki til að vinna úr þeirri reynslu sem hún aflaði sér í bankahruninu. Hún var erfið á köflum.

Fyrri ríkisstjórnir sem setið hafa frá 2008 hafa hvor um sig reynt hvað þær hafa getað til að vinna úr þeirri reynslu. Á sínum tíma lögðu menn í það mikla verk að setja á laggir rannsóknarnefnd Alþingis sem fór ákaflega vel yfir tildrög og atburðarásina sem leiddi til hrunsins. Hún komst m.a. að því að menn hefðu sofið með þeim hætti á verðinum að þegar kom fram yfir mitt ár 2006 hefði ekki verið hægt að snúa ofan af því sem síðar varð. Þetta er auðvitað mikilvæg reynsla.

Í ljós hefur komið að ýmsar þær tilskipanir sem við tókum upp í gegnum EES-samninginn voru gallaðar. Í því efni má vísa til margra vísindalegra ritgerða sem núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, hefur skrifað og birt erlendis í vísindaritum og flutt sem ræður.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafin vinna að því að eima úr niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar hvar hægt væri að bæta löggjöf til að koma í veg fyrir að sú atburðarás sem varð árið 2008 endurtæki sig í framtíðinni. Hugsanlega er það aldrei hægt en það er að minnsta kosti hægt að draga úr líkum á því. Eins og fram hefur komið, ekki síst í ágætu máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, hafa mörg göt komið í ljós sem menn hafa verið að stoppa upp í. Sú vinna var hafin í tíð hans og þeirra tveggja fjármálaráðherra sem sátu síðar í tíð síðustu ríkisstjórnar. En ég vil líka segja það skýrt að ég tel að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi af mikilli röggsemi haldið áfram því verki sem hafið var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er augljóst á þeim frumvörpum sem hann hefur verið að leggja fram að hann vinnur vinnuna sína hvað þetta varðar. Við áttum fyrr á þessum vetri miklar umræður um merkilegt frumvarp sem hann lagði fram sem laut ekki síst að því að setja reglur um það með hvaða hætti ætti að auka við eigið fé bankanna. Að vísu fylgir skavanki því frumvarpi því að þar var líka gert ráð fyrir að lagt yrði inn á brautir aukinna bónusgreiðslna, ég hygg að þingið hafi lýst vilja sínum nokkuð vel gagnvart þeim parti frumvarpsins. En það frumvarp og síðan þetta frumvarp eru alveg skýr skref fram á við og ég tel að samanlagt dragi þau verulega úr líkum á því að aftur komi upp staða af þeim toga sem hér varð árið 2008.

Í þessu frumvarpi eru tekin ýmis skref sem segja má að séu til stórkostlegra bóta, að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur bent vel á það hvernig strax í 1. gr., sem fjallar um breytingar á gjaldeyrismálum, er nýmæli sem gerir það að verkum að hægt er að leggja drjúgar stjórnvaldssektir að lögum á fjármálastofnun fyrir brot án tillits til þess hvort tiltekinn fyrirsvarsmaður þess fyrirtækis verður uppvís að því að hafa framið glæp eða átt sök á málinu. Það er sem sagt hægt að sekta stofnun um verulegar upphæðir fyrir það eitt að hafi innan vébanda hennar orðið atburðarás sem hafi sannarlega orðið samfélaginu til skaða eða einhverjum einstaklingum innan þess. Þetta tel ég ákaflega jákvætt.

Einnig er ég þeirrar skoðunar að það sé mikilvæg nýbreytni að fara inn á þá leið að geta sett lögaðila sekt sem er allt að 10% af veltu undangengins árs. Ég velti hins vegar fyrir mér af hverju sú upphæð er sett upp eða það mark, 10%. Ég spurði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að því hér áðan en ekki komu nú skýr svör við því. Það kann vel að vera að við sérstakar aðstæður sé brot svo stórfellt að það sé verjanlegt að leggja jafnvel enn þyngri fésektir á það fyrir brot sem fram koma.

Í þriðja lagi liggur fyrir það nýmæli, ef maður horfir á það saman, að það er bæði hægt að sekta einstakling sem er í forsvari fyrir fyrirtæki eða á stóran eignarhluta í fyrirtækjum eða tengdum fyrirtækjum jafnt og fyrirtækin sjálf fyrir brot á þessum lögum. Þannig má segja að það sé eins konar tvöfaldur refsivöndur sem reistur er gagnvart viðkomandi fjármálafyrirtæki sem kann að verða brotlegt. Þetta skiptir allt saman máli.

Í fjórða lagi er refsing sem hægt er að beita gagnvart einstaklingi líka hækkuð verulega. Hámarksrefsingin er núna 65 millj. kr. Ég verð hins vegar að segja alveg eins og er að ég er efins um að rétt sé að setja þann ramma svo neðarlega, setja hámarkið svo neðarlega. Ég er þeirrar skoðunar að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa möguleika á því að sekta viðkomandi um hærri upphæð ef það telur að það sé líklegt til að verða öðrum víti til varnaðar og það sé kerfinu í heild til ábata að taka slíkar ákvarðanir. Þegar frumvarpið er skoðað er ljóst að nánast allt sem í því er að finna er til bóta og sumt til stórfelldra bóta.

Ég tel til dæmis að umfjöllunin um það með hvaða hætti á að reyna að stemma stigu við stórfelldum brotum sem fela það í sér að fjármálastofnun eða einstaklingar sem henni ráða eða eiga í henni stóra hluti komi upp þannig stöðu að kerfið sé kannski allt sé undir. Það er nýbreytni tel ég, að minnsta kosti eins og fjallað er um það á bls. 12 og 13 þar sem menn gera grein fyrir því með hvaða hætti eigi að hækka refsirammann um fjármálafyrirtæki sem skapa slíka stöðu. Ég tel að það sé líklegt til að draga mjög úr því að menn hætti sér inn á þær slóðir í framtíðinni.

Við sáum það í fjármálahruninu 2008 að þá mynduðu stórir hópar lántakenda sem voru tengdir innan bankanna mikla kerfislega áhættu. Það er reyndar sorglegt að geta lesið það í rannsóknarskýrslunni að á sínum tíma virtist sem eftirlitsstofnunum væri að verða það ljóst, en þegar athugasemdir voru gerðar við viðeigandi fyrirtæki þá, samkvæmt niðurstöðum þeirrar skýrslu sem eru raktar hér í greinargerðinni, leiddi það einungis til þess að viðkomandi fyrirtæki stóðu í orðaskaki við eftirlitsaðilana og reyndu eins og þau gátu að koma sér fram hjá því að breyta háttsemi sinni eða breyta þessum eignatengslum. Því held ég að farið hafi eins og fór. Það skiptir ákaflega miklu máli að það sé gert algerlega skýrt að ef koma fram einhvers konar vísbendingar um slíkar innbyrðis tengingar sé tekið ákaflega fast á því.

Í þeim 12 lögum sem á að breyta, eða í nánast öllum þeirra, eru talin upp nokkur ákvæði sem eru samhljóða í breytingunum gagnvart sérhverjum þessara laga. Ég verð að segja að með tilliti til umræðunnar sem þegar hefur átt sér stað má kannski segja að það vanti inn í þá upptalningu, til dæmis tel ég að sú ábending sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um brot sem varðaði réttar upplýsingar ætti algerlega heima inni í þessari upptalningu. Einnig er ég þeirrar skoðunar að þegar um er að ræða atburðarás sem kann að fela í sér brot að því marki að verið er að byggja upp mjög áhættusamar, stórar, tengdar stöður, þá sé það svo alvarlegt að það eigi að vera eitt af því sem sé talið sérstaklega upp, þó að segja megi að t.d. í 2. gr., bæði í staflið a og sömuleiðis staflið d, falli það kannski undir. En ég tel að það eigi að slá þetta frekar í gadda með því að nefna þetta alveg sérstaklega.

Ég nefni eitt þó að ekki skipti það mjög miklu máli, en mér finnst álitamál hvort eigi að beita stjórnvaldssektum óháð því hvort brotin eru framin af ásetningi eða gáleysi. Auðvitað á líka að beita viðurlögum gagnvart stórfelldu broti sem framið er af gáleysi, en ég tel hins vegar að það brot sem framið er af ásetningi eigi að hafa í för með sér miklu harðari refsingar en endilega gáleysisbrotin.

Það sem ég hef sagt áður í andsvörum í þessari umræðu að mér finnist helsti ljóðurinn á frumvarpinu, er vitaskuld það sem kemur fram í greinargerðinni að hópnum sem falið var að skoða fjóra þætti af hálfu hæstv. ráðherra komst að þeirri niðurstöðu að einn þessara þátta, þ.e. löggjöf um uppljóstranir, ætti að svo stöddu ekki heima í þessu frumvarpi. Í greinargerðinni á bls. 8 kemur fram að nefndin telur rétt að bíða með að leggja til lagabreytingar á því sviði og fylgjast þess í stað með þróun mála hjá nágrannalöndunum. Er þá sérstaklega vísað til þess að í Noregi og Svíþjóð sé verið að vinna að lagabreytingum sem eiga að miða að því að taka upp tilteknar tilskipanir frá ESB og við munum þurfa að taka upp síðar. Mér þykir þetta eiginlega undrum sæta, ekki síst í ljósi þess að í Svíþjóð, sem er að breyta löggjöf sinni til batnaðar, er nú þegar að finna mjög góða löggjöf sem einmitt verndar þá sem vilja koma fram með uppljóstranir, til dæmis á sviði fjármálaþjónustu eða innan eftirlitsstofnana, og bókstaflega býr til ferli þar sem menn geta nokkuð óhultir komið þeim á framfæri án þess að eiga yfir höfði sér einhvers konar refsingar eða hefnd af hálfu þeirra sem eru yfirmenn viðkomandi. Þetta verð ég að segja að er til fyrirmyndar og hefði auðvitað átt að taka upp að dæmi Svía, í stað þess að gera eins og starfshópurinn gerir að leggja til að menn staldri við átekta og bíði eftir því að sjá hvernig Svíar ætla að breyta þessu. Þeir eru nú þegar með löggjöf sem væri til stórra framfara.

Ef maður skoðar síðan hvernig þetta hefur þróast í öðrum löndum er kannski nærtækast að skoða með hvaða hætti Bretar gera þetta. Þar vill svo til að síðan 1999 hafa verið í gildi lög sem gerðu ákveðnum eftirlitsaðilum þar kleift að setja upp ákveðið ferli fyrir fjármálastofnanir þar sem uppljóstrarar og þeir sem vilja koma á framfæri upplýsingum sem gætu varðað við lög eða gætu leitt til þess að samfélagið skaðaðist, gætu sýnt fram á það að reglum væri ekki fylgt, þeir geta komið slíkum upplýsingum á framfæri og notið verndar. Við vitum það, því miður, að reynslan sýnir að þeir sem taka að sér slík þjóðþrifaverk fyrir samfélagið sæta oft alls konar ákúrum og jafnvel óformlegum viðurlögum. Oft eru menn beinlínis reknir úr starfi eða þröngvað úr starfi eða komið í veg fyrir að þeir fái framgang. Í upplýsingum sem ég hef komist yfir varðandi þetta, þá er frá því greint að árið 2013 fékk einn eftirlitsaðili meira en þrjú þúsund upplýsingar frá slíkum uppljóstrurum og þó að einungis örfáar þeirra hafi leitt til þess að í ljós kom saknæmt brot, þá skipti þetta máli. Og ekki er langt síðan að sérstök nefnd, þingnefnd í breska þinginu um góða bankahætti, gerði ákveðnar tillögur sem allar voru teknar upp og lutu allar að því að vernda uppljóstrara og hvetja þá til að koma fram með upplýsingar. Á sínum tíma var líka reyndar í Bandaríkjunum sett upp kerfi þar sem ákveðinn fjárhagslegur hvati var til að örva menn til að koma með slíkar upplýsingar. Breska nefndin komst að því að ekki væri ástæða til að gera það. En þetta er helsti gallinn á þessu frumvarpi.