144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir það sem hann fór síðast yfir, þann ágalla sem hefur verið rakinn við umfjöllun þessa máls hér í dag og varðar uppljóstrun, að það skuli í rauninni ekki vera komið lengra en svo að það sé ekki tekið á því í þessu máli.

Hv. þingmanni var tíðrætt um sektarfjárhæðir fyrr í ræðu sinni og taldi hann 65 milljónir vera of lága upphæð. Það kemur fram í 7. gr. að þær sektir sem lagðar verði á einstaklinga geti numið um 100 þúsund til 65 milljóna og svo aftur á lögaðila frá 500 þúsundum allt að 10% af heildarveltu sl. rekstrarárs. Hvað finnst hv. þingmanni þá um lágmarkið varðandi lögaðila, þ.e. þessi 500 þúsund? Nú eru lögaðilar misstórir og allt það. Síðan í framhaldi af þessu, af því að rætt var hér um lögbrot sem framin eru af ásetningi eða gáleysi, þá taldi þingmaðurinn að það ættu að vera harðari viðurlög við brotum sem framin eru af ásetningi. Hefur hann engar áhyggjur af því að þetta geti á einhverjum tímapunkti orðið matskennt? Getur sá sem sekta á eða slíkt haldið uppi þeim vörnum að gáleysi geti orðið ofan á þegar upp er staðið, þ.e. að matið verði með slíkum hætti frekar en brotið hafi verið framið af ásetningi? Fjárhæðirnar eru 65 milljónir að hámarki hjá einstaklingum en 500 þúsund að lágmarki hjá lögaðilum. (Forseti hringir.) Hvaða sektarfjárhæðir teldi hann vera æskilegar til handa einstaklingum?