144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er tekin ákveðin stefna í þessu frumvarpi sem ég lýsti yfir hér fyrr í dag að ég væri eiginlega sammála. Hún er sú að beita stjórnsýsluviðurlögum, beita sektum fremur en fangelsisrefsingum. Að því sögðu segi ég þó og tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að í tilviki mjög grófra brota sé sjálfsagt að beita fangelsisrefsingum því að oft eru þær mesti refsivöndur. Við erum sammála um það.

Ég hef í þessari umræðu reynt að grafast fyrir um hvaðan þessar upphæðir koma. Það voru ekki skýr svör við því. Þá vil ég trúa hv. þingmanni fyrir því að ég tel að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa frjálsar hendur í þessu efni. Ég tel að það eigi ekki að vera nein efri mörk. Ég tel að ef Fjármálaeftirlitið telur að einhver tiltekinn einstaklingur, sem hefur orðið sekur um verulega mikið brot án þess þó að það sé beinlínis þess eðlis að hann eigi að sæta fangelsisrefsingu, þá geti það og megi fara hærra en 65 milljónir. Ég gæti fært ótal rök fyrir því af hverju það ætti að vera heimilt. Í mörgum tilvikum er um að ræða mjög efnaða einstaklinga sem hugsanlega brjóta lög í þeim tilgangi að hagnast um miklar upphæðir. Ef niðurstöður Fjármálaeftirlitsins væru að það ætti að fara hærra en þessa upphæð þá finnst mér að eftirlitið mætti það. Sama gildir ef það væri niðurstaða Fjármálaeftirlits að einhver lögaðili ætti að greiða meira en 10% af veltu þá hlyti stofnunin að meta það svo að viðeigandi fyrirtæki eða stofnun gæti eigi að síður haldið áfram starfsemi. Ef svo er þá á það að vera mat Fjármálaeftirlitsins. Ef viðkomandi unir því ekki getur hann væntanlega skotið því til æðri úrskurðar.

Varðandi 500 þús. kr. í tilviki lögaðila þá tel ég (Forseti hringir.) að það eigi bara að vera mat Fjármálaeftirlitsins eftir efnum og ástæðum. Hugsanlega er um að ræða ákaflega léttvæg brot.