144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hljóta alltaf að verða mjög matskenndar ákvarðanir hjá Fjármálaeftirlitinu þegar verið er að ákveða upphæð sekta. Ég sé ekki neinar sérstakar leiðir fram hjá því. Það er auðvitað hægt í lögum af þessu tagi að njörva það eitthvað fastar niður. Ég er þó þeirrar skoðunar að það sem skorti helst í frumvarpið sé sú upptalning sem ég gat um í ræðu minni hér áðan og er að finna í flestum breytingunum varðandi þau tólf lög sem þarna er verið að breyta. Þá upptalningu mætti hugsanlega gera nákvæmari. Ég benti á tvö atriði í þeim efnum.

Varðandi aðrar breytingar sem eru fyrirhugaðar af hálfu fjármálaráðuneytisins þá hygg ég að greinargerðin vísi til reglna um nýtt þrefalt fjármálaeftirlit sem Evrópusambandið er búið að samþykkja hjá sér og Íslendingar þurfa að taka upp en eiga hins vegar mjög erfitt með vegna þess að það felur í sér íhlutunarrétt erlends valds og er ekki víst að stjórnarskráin leyfi það fullkomlega. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að sá umbúnaður sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til og við erum orðin aðilar að án þess að það hafi verið rætt á Alþingi Íslendinga orki mjög tvímælis. Það þýðir í reynd að fjármálaeftirlit innan Evrópusambandsins potar yfir EES-vegginn í stofnun sem verður sett þar upp og hún fer síðan af stað. Ég held að það sé feluleikur og að miklu betra sé að breyta stjórnarskránni og heimila annan umbúnað.