144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna alls þessa sem hv. þingmaður rekur hér þá kemur það mér svolítið spánskt fyrir sjónir að í fjármálaráðuneytinu skuli menn síst treysta sér til nýsköpunar í löggjöf á þessu sviði. Við höfum auðvitað rætt suma þætti uppljóstrunar dálítið oft hér á þingi í vetur og meðal annars í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir, í ljósi fyrirhugaðra kaupa skattrannsóknarstjóra á gögnum um upplýsingar um eignir íslenskra aðila í skattaskjólum erlendis. Það liggur til dæmis fyrir að það kann að vera mögulegt, fyrir verjendur slíkra manna, að halda því fram að heimildir séu ekki ótvíræðar til að nýta illa fengin gögn. Það er líka ljóst að Þjóðverjar hafa gengið mjög langt í að opna fyrir notkun slíkra gagna og þar með er verið að verja uppljóstrarana, það er ekki einu sinni gerð krafa um það, í tilviki Þýskalands, að þeir sem selji gögnin hafi heimild til að selja þau, heldur megi hið opinbera kaupa þjófstolin gögn. Það er því ekki einu sinni gerð krafa um að seljandinn geti gefið út kvittun.

Ég mundi þess vegna vilja velta því upp hvort þingmaðurinn sjái ekki ástæðu til þess að við förum sérstaklega yfir það í nefnd með hvaða hætti hægt væri að bæta þarna úr. Ég skil að nefnd sérfræðinga telji eðlilegt að bíða eftir nýrri löggjöf frá Noregi og Svíþjóð, það eru auðvitað fordæmi um uppljóstraravernd í öðrum löndum. Ég spyr hvort ekki sé ástæða til þess að fara yfir það í nefndinni að bæta þar úr.