144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar skýringar. Ég tek undir það og segi aftur það sem ég sagði áðan, ég held að ef við höfum fyrirmyndir, burt séð frá þessari tilteknu tilskipun, þá gæti nefndin komist að einhverri niðurstöðu um að fara einhverja millileið áður en frumvarp um uppljóstrara nær fram að ganga.

Ég get líka tekið undir það sem hv. þingmaður sagði áðan hvað varðaði skattaskjólsupplýsingarnar og annað því um líkt, það gæti alveg hafa verið ástæða þess að menn náðu ekki saman, og í sjálfu sér miðað við þær nefndir sem skipaðar hafa verið hér af hálfu ríkisstjórnarinnar margar hverjar, þá hafa þær í svona stórum veigamiklum málum ekki verið að skila samdóma niðurstöðu. Við sjáum það í daglegu fari þeirra sem hér fara með æðstu völd í þjóðfélaginu, hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra, að mjög mismunandi áherslur og túlkun virðist vera á mjög mörgu er varðar stóra þætti í stjórn samfélagsins. Þetta er kannski einmitt eitt af því sem gæti hafa gerst þar.

Ég vona auðvitað að nefndin fari yfir hvað það var sem varð til þess að sú nefnd sem skipuð var skilaði niðurstöðum á þennan veg og treysti sér ekki til að koma fram með einhverja tillögu í þessa veru. Það verður í raun áhugavert og ég ímynda mér eins og ég segi að þeir þingmenn sem þar eru muni sjá til þess að um það verði spurt.