144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að inna hv. þm. Frosta Sigurjónsson eftir afstöðu hans og þingflokks Framsóknarflokksins til frumvarps sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt hér fram og er um niðurlagningu Bankasýslunnar. (Gripið fram í.)

Bankasýslan var á sínum tíma sett á stofn í kjölfar bankahrunsins til þess að fara með eignarhald á hlutum ríkisins í sparisjóðum og bönkum og sjá um sölu þeirra. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp sem leggur til að stofnunin verði lögð niður, verkefnin verði tekin inn í ráðuneytið, hæstv. ráðherra fái heimild til þess að taka ákvörðun um að selja eigur ríkisins í bönkum og sparisjóðum, þar á meðal eignarhlutinn í Landsbankanum og hugsanlega þá tvo banka sem nú eru í eigu kröfuhafa en munu líklega lenda í vörslu ríkisins.

Þetta getur hæstv. fjármálaráðherra gert án þess að þurfa neitt annað en að leggja málið fyrir tvær þingnefndir en það segir þó ekkert í frumvarpinu um það hvort hann þurfi að fara að ráðleggingum þeirra. Hann þarf að hafa samráð við Seðlabankann en aðallega þarf hann að hafa samráð við þriggja manna samráðsnefnd sem hann skipar sjálfur.

Ég tel að þetta bjóði margvíslegum hættum heim. Ég tel að þetta sé vel til þess fallið að skapa tortryggni og í núverandi andrúmslofti skapa harðar ásakanir á hvern þann sem situr í stóli fjármálaráðherra sem vindur sér í það að afsetja þessa hluti.

Það vill svo til að við hv. þm. Frosti Sigurjónsson áttum orðastað í þessum þingsal um miðjan desember um þetta. Þá virtumst við vera sammála því viðhorfi sem ég hef hér lýst og hv. þingmaður lýsti því í viðtali við ríkissjónvarpið 11. desember að hann teldi að stofnunin ætti að vera til áfram. Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkti síðan skelegga ályktun um að Bankasýslan eigi áfram að vera til og annast eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum svo að sjónarmiðs armslengdar sé gætt.

Ég spyr því hv. þingmann: Hver er afstaða hans til þessa máls og setti Framsóknarflokkurinn einhverja fyrirvara við framlagningu þessa frumvarps?