144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þung umræða um sjávarútvegsmál hefur ekki farið fram hjá neinum síðustu daga og vikur. Það er eins og þjóðin hafi komist að því að sjávarútvegurinn geti greitt allt sem þjóðina skortir. Hækkuð veiðigjöld eru lögð á útgerðina, það kom illa við dreifðar byggðir landsins og hættan er frekari samþjöppun í greininni sem er skelfileg hætta fyrir landsbyggðina. Ósanngjarnasti hluti veiðigjaldsins er 20% af hagnaði vinnslunnar sem greiddur er af útgerðinni, sem er óskyldur aðili í flestum viðskiptum.

Það er mikilvægast að við eigum sterkan sjávarútveg sem getur staðið undir samkeppni á erlendum mörkuðum og hefur vilja og getu til að greiða sjómönnum og fiskvinnslufólki góð laun. Það verður ekki gert með óhóflegri skattlagningu og færð eru rök fyrir því að með óhóflegu veiðigjaldi greiði útvegurinn 50% af tekjum sínum í skatt.

Ég tek undir með Kolbeini Árnasyni, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að við verðum að taka umræðuna um sjávarútvegsmál á boðlegum nótum. Umræðan um makrílkvótann ber vott um þá djúpu gjá sem er á milli þjóðar og útvegs. Hagfræðingur einn sagði að 80% afsláttur væri gefinn af leigu makrílkvóta í nýju frumvarpi, sem er til marks um algjöra vanþekkingu á málefninu og greinir á milli vits og óvits í umræðunni. Þetta er algjörlega óboðleg umræða. Ef makríllinn lætur sjá sig við Íslandsstrendur í sumar gætum við veitt 150–170 þús. tonn og verðmætin gætu orðið 20 milljarðar. Það er góð búbót fyrir ríkissjóð á 15 ára afmæli Samfylkingarinnar, auk þess sem makríllinn hefur skapað mikla vinnu í landinu.

Ef Samfylkingin, sem vill fara með þjóðina í Evrópusambandið, leggur til að við fengjum úthlutað kvóta frá sambandinu sem gæti verið 5% af aflahlutdeild, um 50 þús. tonn, er það tæplega þriðjungur þess sem við höfum veitt. Það sem verra væri, við fengjum engin veiðigjöld af þeim veiðum. Er það það sem Samfylkingin vill á 15 ára afmæli Samfylkingarinnar, engin veiðigjöld af makrílnum (Forseti hringir.) og engir siðlausir eigendur kvótans?

Virðulegi forseti. Eigum við ekki að vinna að sátt um sjávarútveginn svo hann geti áfram skilað þjóðarbúinu góðum tekjum og greitt góð laun?