144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag er Alþingi Íslendinga sett í afar sérkennilega stöðu, svo ekki sé meira sagt. Hér mæli ég fyrir meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sett er fram við minnihlutaálit nefndarinnar sem er viðbrögð minni hlutans í nefndinni við áliti umboðsmanns Alþingis um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra.

Virðulegi forseti. Ég finn þessari málsmeðferð hvergi stað í þingskapalögum og er hún einsdæmi í sögu þingsins. Vissulega skapar þessi ákvörðun forseta þingsins fordæmi til framtíðar en sýnir líka hversu brýnt það er að setja á fót lagaskrifstofu við þingið sem hefði meðal annars það hlutverk að skera úr um hvaða mál eru þingtæk og hver ekki.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég fór fram á það við þingfundaskrifstofu Alþingis í gær að breyta yfirskrift þskj. 1255, sem ég er 1. flutningsmaður á, úr skýrslu og yfir í álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni og fer ég fram á það við forseta að úr verði bætt strax.

Nú les ég álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti og embættisskyldur innanríkisráðherra, með leyfi forseta. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson, Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen.

„Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lítur svo á að máli fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hafi lokið með áliti umboðsmanns Alþingis sem birt var 22. janúar 2015. Að auki hefur viðkomandi borið pólitíska ábyrgð með afsögn sinni sem ráðherra. Rétt er að geta þess að fyrrum aðstoðarmaður ráðherra hefur hlotið dóm fyrir brot í starfi.“

Virðulegi forseti. Ég ítreka niðurstöðu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Málinu er lokið.