144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er fyrsti talsmaður minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að skýrslu um svonefnt „lekamál“. Að skýrslunni standa auk mín hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Brynhildur Pétursdóttir.

Þetta er lokaþáttur í alllöngu ferli hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, en fram undir hið síðasta hef ég ekki orðið var við óeiningu innan nefndarinnar um málsmeðferðina þar til nú, þegar málið er afgreitt og til verður ríkisstjórnarmeirihluti í nefndinni undir forustu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem talar síðan fyrir meirihlutaskýrslu sem hér hefur verið lesin upp. Þar er vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hafi sent frá sér sitt álit og þar með sé málinu lokið, en auk þess hafi ráðherrann fyrrverandi axlað pólitíska ábyrgð með afsögn sinni.

Hvoru tveggja vil ég mótmæla. Í fyrsta lagi tók hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, það fram í bréfi sem hún sendi frá sér við afsögn sína að afsögnin væri fyrst og fremst af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Þar með er ekki sagt að afsögn í tengslum við þetta mál hafi ekki áhrif á pólitískar lyktir þess eins og reifað er í þessari skýrslu.

Í annan stað legg ég áherslu á að umfjöllun umboðsmanns Alþingis og álitsgerð hans er miklu þrengri en sú sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur haft með höndum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd byggir á þingskapalögum sem gerð var á grundvallarbreyting árið 2011, í kjölfar efnahagshrunsins, fyrst og fremst með það fyrir augum að efla aðhalds- og eftirlitshlutverk Alþingis og festa í lög ákvæði sem snúa að upplýsinga- og sannleiksgildi ráðherra gagnvart Alþingi.

Við segjum í álitsgerð okkar eða skýrslu um þetta lekamál að skýrslan taki „til upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi með hliðsjón af þingeftirliti og þingræðisreglunni; fjallað er um öflun trúnaðarupplýsinga og varðveislu slíkra gagna í ráðuneytum, þar með talið trúnaðargagna, og loks er umfjöllun um álit umboðsmanns Alþingis vegna frumkvæðisathugunar á samskiptum innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu“.

Þetta er sem sagt efni þessarar skýrslu sem ég er að mæla fyrir. Þetta mál, lekamálið, kom fyrst inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hinn 10. desember árið 2013 og þá vegna frétta sem birtust í fjölmiðlum þess efnis að líkur væru á því að trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla. Ráðherrann fyrrverandi mætti þá fyrir nefndina. Málið kom upp að nýju 11. febrúar 2014, en þá vakti hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir athygli nefndarinnar á því að ríkissaksóknari hefði vísað máli er varðar meintan leka á persónuupplýsingum úr innanríkisráðuneyti til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundi nefndarinnar 13. maí 2014 kom málið enn upp á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en þá áréttaði ég sem formaður nefndarinnar að málinu væri ekki lokið í ljósi þess sem fram hefði komið fyrir nefndinni á Alþingi og í frásögnum fjölmiðla af rannsókn lögreglu.

Málið var síðan aftur tekið upp 22. ágúst 2014, enn í tengslum við meðferð málsins hjá nefndinni, en þá hafði ráðherra beðist undan málefnum dómsmála, lögreglu og ákæruvalds, auk þess sem umboðsmaður hafði verið að fjalla um málið. Það er einmitt það sem hafði gerst frá því að málið var tekið upp í maímánuði 2014 og seinni hlutann í ágúst þetta ár, að umboðsmaður Alþingis tók málið til skoðunar. Það gerði hann í lok júlímánaðar með bréfi til þáverandi hæstv. innanríkisráðherra og komst síðan að þeirri niðurstöðu 25. ágúst að hann mundi hafa frumkvæði að formlegri athugun á málinu.

Þegar málið var komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis var ljóst að nefndin mundi ekki hafast að meðan svo væri, enda kemur það fram í bréfi umboðsmanns Alþingis þegar hann skilar áliti sínu í bréfi sem er dagsett 22. janúar, daginn áður en hann skilar frá sér, að hann hafi á þessum fullan skilning. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá mun ég í ljósi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur lýst því að hún hafi ákveðið að bíða með boðaða umfjöllun sína um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra, þ.m.t. umrædd samskipti við lögreglustjórann, þar til niðurstaða athugunar minnar liggur fyrir senda nefndinni afrit af álitinu.“ — Varð það hjálagt ásamt fylgiskjölum.

Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að þetta bréf sem er dagsett 22. janúar er ekki að finna í gögnunum, það eru mistök og það verður ráðin bót á því máli. Það er þegar komið á gáttina og á að vera hluti af málsskjölum sem eru hér til umfjöllunar.

Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að hann skili frá sér áliti en ekki skýrslu. Hann vísar til þess að með bréfi fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra til embættisins hafi orðið breyting á, enda hafi ráðherrann fyrrverandi varpað nýju ljósi á málið, breytt yfirlýsingum sínum sem þá urðu til þess að umboðsmaður ákvað að skila frá sér áliti en ekki skýrslu. Skýrsla til Alþingis er þess eðlis að hún kallar á á formleg viðbrögð sem álitsgerð gerir síður. Í bréfi innanríkisráðherrans fyrrverandi til umboðsmanns frá 8. janúar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Það voru mistök af minni hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir.“

Síðar er því lýst yfir að frásögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við umboðsmann Alþingis hafi að uppistöðu verið rétt. Síðan segir í niðurlaginu:

„Mér er einnig ljóst að þessi samskipti voru ekki að öllu leyti réttmæt af mér gagnvart lögreglustjóranum. Ég hef þegar, að viðstöddum umboðsmanni, rætt við Stefán og beðið hann afsökunar á þessum samskiptum og framgöngu minni í þeim.“

Þar með kemur einnig fram að ýmsar yfirlýsingar sem voru gefnar á Alþingi reyndust ekki réttar.

Ég tek fram að það kemur í ljós við skoðun á álitsgerð umboðsmanns Alþingis að hann segir að málið hefði tekið miklu skemmri tíma ef spurningum hans til ráðherrans hefði verið svarað sem skyldi. Svo var ekki. Það tafði málið og við leggjum á það áherslu í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að umboðsmaður á rétt á því og við eigum rétt á því sem eftirlitsstofnun, Alþingi, að umboðsmanni sé svarað.

Þá kemur einnig fram að ráðherrann fyrrverandi eigi lögum samkvæmt að leita ráðgjafar hjá ráðuneyti sínu um framgang máls af þessu tagi. Það kemur fram hjá umboðsmanni Alþingis að svo hafi ekki verið gert sem skyldi, hann hafi ekki fengið sannfærandi upplýsingar um að svo hafi verið gert. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli fyrir ráðuneytið og það fólk sem þar starfar.

Í greinargerðinni sem er uppistaða þessarar skýrslu er farið yfir gang málsins. Hann er rakinn, það er vísað í umræður sem voru á þingi bæði í skýrslunni sjálfri og svo fylgja þau með gögnum.

Við komumst síðan að þeirri niðurstöðu að mörgu hefði verið áfátt á umgengni hæstv. ráðherra fyrrverandi við þingið og einnig hvað varðar yfirlýsingar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr skýrslu okkar, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn áréttar að við umfjöllun um málið í þingsal hafi ráðherra sagt, um óformlegt minnisblað ráðuneytisins sem vitnað var til í frétt fjölmiðla, að ekki væru til nein sambærileg gögn í ráðuneytinu. Þá hafi ráðherra einnig sagt að þau gögn sem væru í ráðuneytinu færu víða, þ.e. til undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins o.fl. Eftir birtingu dóms Hæstaréttar, þar sem fram kemur að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að minnisblað hafi verið útbúið í innanríkisráðuneytinu 19. nóvember 2013 vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitanda, hafi ráðherra upplýst fyrir Alþingi að í ráðuneytinu væri til samantekt, en ekki formlegt minnisblað, varðandi tiltekinn hælisleitanda. Loks hafi ráðherra skýrt frá því að í gangi væru tvö gögn, annars vegar samantekt ráðuneytisins og hins vegar gagn þar sem upplýsingum hefði verið bætt við sem ráðuneytið gæti ekki borið ábyrgð á.“

Síðan er vísað í fyrirspurnir á þinginu og segir áfram, með leyfi forseta:

„Fyrirspurnirnar lutu að því hvað ráðherra hefði gert til að kanna hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur hefðu getað farið til fjölmiðla frá ráðuneytinu. Minni hlutinn telur samkvæmt framangreindu að upplýsingagjöf ráðherra um tilurð og tilvist minnisblaðsins hafi verið misvísandi og ekki í samræmi við upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi.“

Ég vísa enn í okkar skýrslu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að þegar ráðherra sagði í þingsal að þau gögn sem væru í ráðuneytinu færu víða, m.a. til undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins o.fl. aðila, hafi hún í reynd verið að ýja að því að starfsmenn þessara aðila auk lögmanna gætu hafa brotið gegn ákvæðum um þagnarskyldu. Slíkar yfirlýsingar hljóta að teljast alvarlegar af hálfu ráðherra og meiðandi fyrir hlutaðeigandi aðila. Í áliti umboðsmanns kemur einnig fram að í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2014 hafi ráðherra hringt í lögreglustjórann og gagnrýnt vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins. Sérstaklega hafi verið fundið að því að „fókusinn“ væri á aðstoðarmönnum ráðherra frekar en bara almennt á starfsmönnum ráðuneytisins og tilteknum upplýsingum í kröfugerð lögreglunnar sem fram komu í úrskurði héraðsdóms sem birtur var með dómi Hæstaréttar.“

Varðandi pólitíska ábyrgð og ráðherraábyrgð í þessu efni vísa ég enn í minnihlutaskýrsluna, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að afskipti ráðherra af rannsókn málsins hafi verið alvarleg og í hæsta máta ámælisverð en með vísan til strangra skilyrða laga um ráðherraábyrgð, í ljósi yfirlýsinga ráðherra gagnvart umboðsmanni Alþingis í tengslum við málið, telur minni hlutinn ekki forsendur til frekari skoðunar á þessum þætti málsins.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Málið sem hér er til umfjöllunar er margþætt og snertir margar grundvallarreglur í stjórnskipun landsins, m.a. eftirlit með valdhöfum, meðferð valds, þ.m.t. samskipti ráðherra við undirmenn, yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir stjórnvalda, mannréttindi, meðferð trúnaðargagna í stjórnsýslunni, skráningu gagna, traust á stjórnsýslunni og upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og umboðsmanni Alþingis.

Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að þeir sem eru skipaðir, settir, kjörnir eða ráðnir til að sinna störfum í þjónustu almennings þurfi ætíð að lúta aðhaldi í sínum störfum hvort sem það er frá kjörnum fulltrúum, þeim sem njóta þjónustunnar, fjölmiðlum eða öðrum. Þá er mikilvægt að ráðherrar beiti því valdi sem þeim er falið með hliðsjón af framangreindum forsendum og séu meðvitaðir um rétt og stjórnskipulegar skyldur kjörinna fulltrúa til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.“

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Allir eiga sinn rétt. Fyrrverandi ráðherra á þann rétt að farið sé með hans mál af sanngirni og á réttmætan hátt. En það eru fleiri sem eiga sinn rétt, þeir sem njóta þjónustu stjórnsýslunnar þar sem er að finna upplýsingar um þá, þar sem á að gæta trúnaðar. Starfsmenn stjórnsýslunnar eiga líka sinn rétt og Alþingi á sinn rétt. Þingmenn eiga sinn rétt. Þingmenn sem beina spurningum til framkvæmdarvaldsins, til ráðherra, eiga sinn rétt líka og Alþingi þarf að standa á þeirra rétti, ekki síður en annarra.