144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti.

736. mál
[14:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða núna gefur okkur kannski smáástæðu til að ræða almennt um hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvernig henni ber að afgreiða mál sem til umfjöllunar eru tekin o.s.frv. Það mál sem hér er til umræðu kom fyrst í desember 2013 ef ég man rétt inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar ákveðinn fjöldi stjórnarandstöðuþingmanna í nefndinni vildi ræða leka á trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu. Engin athugasemd var í sjálfu sér gerð við að fara í einhvers konar umfjöllun um leka á trúnaðarupplýsingum og það var rætt lítillega.

Síðan er það rætt lítillega aftur í febrúar 2014 þegar hafin er lögreglurannsókn, þ.e. málið er komið á það stig að lögregla er að fara að rannsaka lekann á trúnaðarupplýsingum. Ráðherrann kom fyrir nefndina og upplýsti um eitt og annað hvað ráðuneytið hefði sjálft gert til að reyna að upplýsa málið. Það var fjallað um málið í nefndinni í maí þegar fréttir birtust í fjölmiðlum um lögreglurannsóknina sjálfa og síðan er málið tekið aftur síðar til umfjöllunar í nefndinni eftir að umboðsmaður Alþingis ákveður að fara í frumkvæðisathugun á samskiptum ráðherrans við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þetta voru oft litlar og fátæklegar umræður, rætt það sem hafði komið fram í fréttum. Eins og kemur kannski fram í yfirlitinu í þessu máli var til athugunar eða umfjöllunar hjá nefndinni annars vegar leki á trúnaðarupplýsingum og hins vegar embættisskyldur ráðherrans.

Nú þegar málinu vindur fram kemur auðvitað niðurstaða í lekann á trúnaðarupplýsingum. Það er gefin út ákæra, það er dómsmál, þar er rakinn nákvæmlega og upplýstur lekinn á trúnaðarupplýsingum. Það liggur fyrir.

Umboðsmaður Alþingis gefur út álit um samskipti ráðherrans við lögreglustjórann og gerir ýmsar athugasemdir við þau samskipti. Ég var ekki endilega sammála öllu sem kom fram í niðurstöðu umboðsmanns en hann er mikilvægur fyrir þingið og fyrir nefndina og hann kemst að þessari niðurstöðu og við fylgjum henni. Þeim anga málsins lýkur með þessu áliti umboðsmannsins, þ.e. það eru engar forsendur fyrir nefndina til að gera eitthvað meira með það í sjálfu sér eða lekann sem slíkan sem hvort tveggja er upplýst. Þá spyr maður sig: Hvernig á nefndin að afgreiða þessa umfjöllun sem var? Meiri hlutinn telur rétt að vísa bara í þær staðreyndir sem liggja fyrir. Auðvitað geta menn síðan rætt það eins og þeim sýnist. Það eru hvorki forsendur til að gera skýrslu um það né það sem umboðsmaður Alþingis komst að í sinni athugun.

Eftir stendur, og sennilega það sem veldur því að ekki náðist einhugur í þessari nefnd, það að gerð er ítarleg skýrsla um samskipti ráðherrans við þingið sem hafði auðvitað verið rætt bæði á þinginu og lítillega í nefndinni eða að einhverju leyti. Menn hafa auðvitað mismunandi skoðanir á því en út frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem þarf að hafa trúverðugleika og traust verður hún að hafa forsendur til að taka afstöðu eins og minni hlutinn gerir í þessu máli.

Ég lít ekki svo á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að setja sig í hlutverk dómara og ákveða hér hver er að segja ósatt og hver er að segja eitthvað misvísandi. Við getum haft mismunandi skoðanir á því. Ef nefndin á að fara í slíkt hlutverk og ákveða eitthvað slíkt þarf að fara fram alvörurannsókn á því, annaðhvort að nefndin fái einhvern til þess eða geri það sjálf að einhverju leyti, því að þegar við erum að meta hvort einhver ráðherra hafi ekki uppfyllt sannleiksskyldu sína gagnvart þinginu þurfum við að skoða hvað má segja í hverju tilviki, hvað eru trúnaðarupplýsingar. Það þarf að skoða hvað ráðherrann vissi á hverjum tíma. Frá hverju var eðlilegt að segja ekki, t.d. um rannsókn máls ef hún vissi eitthvað um hana? Við höfðum engar forsendur til að efast um að ráðherrann hefði gefið Alþingi upplýsingar í samræmi við vitneskju hennar á hverjum tíma.

Þess vegna gat nefndin í raun og veru ekki verið einhuga í skoðun sinni. Auðvitað þarf hún heldur ekkert að vera það. Við erum búin að fá upplýsingar um það sem mestu máli skiptir varðandi lekann á trúnaðarupplýsingunum, varðandi samskipti ráðherrans við lögreglustjórann og síðan höfum við hvert sínar skoðanir á því hvaða skilning við eigum að leggja í svör hennar á ákveðnum tíma, hvað ráðherrann hafi verið að meina, hvað væri eðlilegt að hún segði og hvað hún hefði mátt segja. Meðan slík skoðun hefur ekki farið fram, meðan enginn þar til bær aðili hefur gert rannsókn tel ég ekki rétt að nefndin setji sig í þá stöðu að vera dómari í málinu.

Það hefur margoft verið komið að máli við mig og ég spurður af hverju ég tæki ekki upp mál frá síðasta kjörtímabili þar sem fjármálaráðherra sagði þinginu ósatt um hvað hefði verið að gerast í samningaviðræðum við kröfuhafa bankanna. Menn geta haft einhverjar skoðanir á því. Ég get alveg — (Gripið fram í.) Við getum tekið fleiri mál. Ég tek þetta bara sem dæmi, það er alltaf verið að biðja um það.

Þetta á ekki að fara í þann farveg að í hvert sinn sem kemur frétt um einhvern ráðherra, að einhver hafi skoðun á einhverju sem er kannski löngu liðið, setji nefndin sig í dómarasæti um það að fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn hafi sagt hér ósatt og vísi í einhver gögn í því. Við vitum aldrei hvað lá að baki, við vitum það að minnsta kosti ekki núna. Við gætum hugsanlega fundið út úr því, en viðkomandi er ekki einu sinni ráðherra lengur og ég held að menn eigi almennt að fara mjög varlega í að nefndin setjist í slíkt dómarasæti sem gerir ekkert annað en að setja hér allt í uppnám. Ég held að það sé ágætt fyrir þingmenn að huga að því, en það er ekkert mál mín vegna að menn komi í þingsal og deili um svör ráðherrans, hafi sína skoðun á þeim, en ég er ekki tilbúinn að nefndin fari í þetta hlutverk.