144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn sem eigum að fjalla um þetta mál innan þingsins að fá skýringar á því hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra af hverju ekki er að finna í þessu frumvarpi ákvæði um vernd uppljóstrara, sér í lagi þegar haft er í huga að eitt af þeim verkefnum sem starfshópurinn sem samdi frumvarpið hafði var einmitt að fjalla um slík ákvæði.

Ég tel líka, herra forseti, að það væri mjög þarft fyrir málið að fram kæmi af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem fær það til sín hvaða afstöðu hann hefur til þess. Ég hef tekið eftir því þegar við höfum átt umræður hér um skyld málefni sem varða styrkingu bankakerfisins að þá hef ég a.m.k. annars vegar og hv. þm. Ögmundur Jónasson, og hins vegar hv. þm. Frosti Sigurjónsson verið giska sammála. En það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði að ég met það svo að þetta frumvarp sé að öllu leyti gott nema að það vantar þessi ákvæði.

Hv. þingmaður vísaði til mín varðandi upplýsingar um Svíþjóð. Það er alveg hárrétt að ég benti á þá staðreynd að í Svíþjóð hafa starfsmenn mjög víðtækan rétt til þess að geta upplýst út fyrir fyrirtækið sem þeir starfa hjá ef þeir komast á snoðir um eitthvað sem telja má ólögmætt, og ekki er hægt að beita þá neinum þvingunum af hálfu atvinnurekandans. Svo mikill trúnaður ríkir um slíkar uppljóstranir að meira að segja ríkisstjórninni sjálfri er meinað að fá upplýsingar um nöfn þeirra sem koma upplýsingum á framfæri. Ég spyr hv. þingmann: Telur hann ekki að það sé alveg sjálfsagt að í umfjöllun þingsins verði lögð mikil áhersla á að ná (Forseti hringir.) slíku ákvæði inn í frumvarpið?