144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þar er ég hjartanlega sammála. Og þá bið ég aftur um liðsinni hv. þingmanns í því hvernig hægt væri að vinna það í nefndinni og gera það allavega faglega, þannig að ef meiri hlutinn hafnar því þá er það einhvers konar sigur vegna þess að þá er hægt að herma það upp á hann og halda þessu áfram gangandi, það skapar meiri þrýsting inn í framtíðina.

Það er eitt sem er gott fyrir þá sem starfa á fjármálamarkaði að vita, að í framtíðinni verða sterk uppljóstraralög á Íslandi. Það eru ekkert mjög mörg ár í það. Það ætti strax að skapa fyrir þá aðila sem upplifa einhvern freistnivanda einhvers konar hvata innra með fólki að freistast ekki. Það er mjög gott, það er mjög gott fyrir alla að búa við þannig umhverfi sem takmarkar það að fólk freistist til þess að brjóta af sér, því að freistingarnar eru að sjálfsögðu víða. Það er einmitt þess vegna sem settar eru alls konar reglur, að aðilinn sem fylgist með fjármálum fyrirtækis sé ekki líka með prókúruna til þess að verja peningum fyrirtækisins, menn reyna að hafa það ekki á sömu hendi, einmitt til þess að minnka freistnivandann. Þú vilt helst ekki bjóða starfsfólki upp á það að sitja uppi með slíkan freistnivanda. Ég veit að framtíðin mun þýða meira gegnsæi, sterkari vernd fyrir uppljóstrara og slíka þætti vegna þess að það er það sem tíðarandinn kallar eftir. Þegar ég segi tíðarandinn þá er ég að tala um að í kjölfar upplýsingabyltingarinnar hefur orðið breytt forgangsröðun í gildismati fólks. Fólk hefur aðgang að upplýsingum, því finnst eðlilegt að hafa aðgang að upplýsingum og finnst ekkert eðlilegra en að (Forseti hringir.) þær upplýsingar komi upp á borðið þannig að þetta er framtíðin.