144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það má alveg hafa lágmark og hámark og það getur verið eðlilegt undir einhverjum forsendum. Aftur á móti, ef þú ert með lágmark og sá sem dæmir hefur ekki skyldur á herðum sínum að hækka sekt við broti eftir alvarleika þess, dómstólar hafa það að einhverju leyti, þar eru fyrir fordæmi o.s.frv., og stjórn Fjármálaeftirlitsins er pólitískt skipuð sem tekur þessar ákvarðanir, þá hefur það bara sýnt sig að algjörar lágmarksrefsingar eru við því að brjóta lög.

Annað líka sem má nefna varðandi Fjármálaeftirlitið og kom fram á opnum fundi árið 2013, minnir mig, þar sem framkvæmdastjóri eftirlitsins kom og ég spurði hana, af því að það kemur skýrt fram í lögum um Fjármálaeftirlitið, alla vega eins og þau stóðu þá að meginmarkmið þeirra sé að fylgjast með lögum um fjármálafyrirtæki og aðila á fjármálamarkaði, þ.e. að þeim sé framfylgt. Samt hafði framkvæmdastjórinn verið að tala um að markmiðið væri að viðhalda fjármálastöðugleika. Ég spurði og þetta er allt til náttúrlega skjalfest og ég bloggaði um þetta á sínum tíma. En sjáðu til, ef þú ert með þessi tvö markmið, fjármálastöðugleika eða að framfylgja lögum um fjármálafyrirtæki, hvort á að víkja? Ef það að framfylgja lögum um fjármálafyrirtæki getur þýtt fjármálaóstöðugleika áttu þá að halda að þér höndum? Þetta virtist ekki vera alveg skýrt. Ég ber því ekki mikið traust til stofnunarinnar að gefnu tilefni.

Þá er tvennt mikilvægt, við festum það þá bara í lögin, það er alla vega mögulegt núna, að festa í lögin hvernig sektirnar hækka, sem bindur hendur stjórnar Fjármálaeftirlitsins, til að sekta hærra eftir alvarleika og hagnaðar af brotinu o.s.frv. Og annað sem hv. þingmaður nefndi sem er svo mikilvægt, að uppljóstrarar fái þessa vernd, að fá uppljóstraraákvæði inn af því að þá er almenningur kominn með (Forseti hringir.) til að taka þátt í þessu. Uppljóstrarar eru orðnar hetjur í dag. (Forseti hringir.) Þetta er ákveðinn bardagi um hug og hjörtu fólks í heiminum. Þetta eru orðnar hetjur og almenningur vill veg þeirra og meiri vernd fyrir þá. Það er það sem koma skal.